Vignir Sigurðsson – Þjálfi

Á dögunum birti Vignir Sigurðsson – Landsliðsþjálfari karla færslu á facebook síðunni “Hér snýst allt um pílukast”. Við fengum leyfi til þess að birta hana hér.

https://www.facebook.com/groups/367807503418069/permalink/772075562991259/

Sælir kæru pílukastarar.
Mig langar að koma á framfæri fréttum og hugleiðingum varðandi Landslið Íslands og almennt um uppganginn í pílukasti hjá okkur hér á klakanum.
Ég hef stundað pílukast síðan 2007 og hef fylgst vel með því sem hefur verið að gerast hjá okkur á þessum tíma. Og þegar maður lítur til baka þá hafa rosalega margir góðir hlutir átt sér stað. Mér finnst líka mikilvægt að við deilum þessari sýn og sögu saman. Það er ótrúlega margt sem hægt er að tína til jákvætt sem gerst hefur á þessum tíma (ég nefni hér nokkur dæmi en örugglega fullt annað sem mætti tína til):
– Aðstaða hefur batnað mikið. Ég nefndi PFR og breytingarnar á suðurnesjum sérstaklega. Vonandi verður aðstaðan ennþá betri hjá Helga og co í nýja húsnæðinu.
– Fleiri iðkendur en áður. Nú eru td hátt í 20 lið í PFR.
– Kvenfólki fjölgar – en þær mætti vera ennþá fleiri.
– IPS hefur haldið opin alþjóðleg mót undanfarin ár (tók við boltanum af opna KR mótunum sem voru frábært framtak á sínum tíma). Og það eru ekkert smá sterkir erlendir spilarar sem hafa komið á þessi mót! Við skulum átta okkur á því og fagna.
– Stemmingin í þessari íþrótt okkar er einstök.
– Live Darts Iceland – hvað er hægt að segja? Frábært framtak
– Við sendum Landslið unglinga á EM í sumar í fyrsta sinn – frábært og því þarf að fylgja eftir.
– Íslenskir spilarar fara meira út að keppa á mótum erlendis.
o Allar Skotlandsferðirnar í gegnum árin þar sem margir hafa náð geggjuðum árangri td. Þorgeir, Ægir og Siggi Alla.
o Ægir í Tékklandi um árið, Halli og Fói unnu til verðlauna í Sviss 2017. Peta, Halli og Ægir hafa líka unnið Blind Draw mót erlendis.
o Ég er pottþétt að gleyma fullt af fræknum árangri okkar fólks á erlendri grund en ég verð að nefna það sem okkar bestu pílukastarar hafa verið að gera síðastliðin 2-3 ár varðandi það að fara á mót á vegum PDC Nordic and Baltic. Þar eru bestu pílukastarar norðurlanda að mæta og safna stigum til að komast á stórmót í Evrópu sem eru sýnd beint á stóru sjónvarðsstöðunum. Vitor og Halli hafa verið sérstaklega duglegir ásamt Ægi, Pétri og Þorgeiri. Ég er sannfærður um að íslendingur eigi eftir að vinna eitt mótið!
Og akkúrat núna eru nokkrir snillingar á leiðinni út að keppa í Bretlandi. Bæði á Winmau og Opna Breska og British Classic. (Vitor, Halli, Þröstur og Pétur í karlaflokki og Jóa, Ella og Ingibjörg í kvennaflokki – algerlega geggjað!!) Vonandi er ég ekki að gleyma neinum.

Varðandi Landsliðið þá hefur líka margt gott áunnist. Við sem þjóð höfum tekið þátt í öllum stórmótum undanfarin ár (EM, HM og Nordic Cup). Bæði karla og kvenna. Það er ekki sjálfgefið að senda alltaf lið út en með vilja og ákveðni þá höfum við gert það. Og það skiptir máli að við séum með og etjum kappi við þá bestu frá hinum löndunum. Keppendur öðlast reynslu og gera allt til að vinna sigra fyrir Ísland. Og við höfum oft gert það! Ég nefni nokkur dæmi: Þorgeir/Þröstur unnu Larry Butler og Huffman á HM 2015, Þröstur/Ægir unnu sterkustu svíana á NM 2012, Halli og Vitor unnu finna á NM 2016, Þröstur vann Wagner í svakalegum leik á NM 2012 og svo mætti lengi telja. Og á HM 2015 var einn spilari sem tók út 170 í leik á mótinu. Þorgeir gerði það á móti Jim Williams sem nokkrum dögum síðar var krýndur heimsmeistari!! Ekki leiðinlegt það. Og andstæðingar okkar erlendis fylgjast með okkur og muna slíkar stundir. Þorgeir fékk fyrir stuttu senda áritaða treyju frá Jim. Þetta er bara respect gott fólk.
Ég er búinn að vera þeirri gæfu aðnjótandi að vera tengdur landsliði okkar undanfarin ár. Og mér finnst það heiður að vinna með þeim sem ná að vinna sig í landsliðið. Allir pílukastarar landsins geta verið fullvissir um það að allir þeir sem ég hef unnið með undanfarin ár hafa lagt líf og sál í verkefni landsliðsins og færa miklar fórnir, bæði tíma og peninga.
Nú erum við að fara á HM í Japan (3-7.okt). Því miður erum við ekki með kvennalið að þessu sinni. En landsliðið okkar núna skipa þeir Pétur Guðmunds, Vitor Charrua, Bjarni Sigurðsson og Alex Dúa. Í fyrradag var dregið og við erum í 3ja liða riðli með Ítalíu og Frakklandi. Það verður erfiður róður en við ætlum okkur góða hluti. Endilega kynnið ykkur frekar hvernig dregið var á dartswdf.com.
Kæru félagar. Landsliðið hefur verið stutt áfram af stjórn IPS í gegnum árin en það er líka gríðarlega mikilvægt að við höfum andlegan stuðning ykkar allra líka. Árangur erlendis er langhlaup og við erum á réttri leið. Landsliðið verður aldrei betra án góðs baklands.

Við munum senda fréttir frá Japan þegar þangað er komið

Áfram Ísland
Kv
Viggi