Fréttir

Breytingar á fyrirkomulagi NOVIS deildarinnar

Stjórn ÍPS framkvæmdi könnun í febrúar meðal allra þátttakanda sem hafa tekið þátt í NOVIS deildinni árið 2022 og 2023. Könnunin var send í tölvupósti en alls tóku 92 meðlimir ÍPS þátt í könnuninni.

Í framhaldi af könnuninni voru eftirfarandi breytingatillögur lagðar fram í stjórn og samþykktar í febrúar 2023. Breytingarnar taka gildi í 3. umferð NOVIS deildarinnar.

Breyting 1
5% lækkun meðaltals þegar umferð er sleppt

NOVIS deildin hefur frá upphafi notast við meðaltöl leikmanna til að styrkleikaraða skráðum leikmönnum í deildir í hverri umferð. Leikmenn hafa getað sleppt einni umferð og haldið meðaltali sínu þá næstu. Ef leikmenn sleppa hins vegar tveimur umferðum í röð hefur meðaltalið farið niður í 0.

Nú mun hins vegar meðaltal leikmanna lækka um 5% við hverja sleppta umferð en ekki fara niður í 0.
Dæmi: Leikmaður spilar í 3. umferð með meðaltalið 58,0 og sleppir 4. umferð. Eftir 4. umferð verður nýtt meðaltal leikmannsins 55,1 sem verður notað þegar raðað verður í 5. umferð í stað þess að vera óbreytt í 58.0. Ef leikmaður sleppir líka 5. umferð verður nýtt meðaltal leikmannsins 52,34 í stað þess að verða 0.

Breyting 2
Ekki skal notast við meðaltal við röðun í Gulldeild RVK

Þessi breytingatillaga er sett fram sem tilraunaverkefni amk út árið 2023 og á hún eingöngu við NOVIS deild Suð-vestur (RVK).

3. umferð verður síðasta umferðin þar sem raðað verður í Gulldeild eftir meðaltali. Aðeins 2 leikmenn (8. og 9. sæti) falla úr Gulldeild og leikmenn í 1.-7. sæti í 3. umferð eru öryggir með sæti sitt í Gulldeild í 4. umferð, óháð meðaltali sínu.

Leikmenn í 1. og 2. sæti Silfurdeildar tryggja sig upp í Gulldeild á kostnað leikmanna í 8. og 9. sæti (fallsætum) Gulldeildar. Ef leikmenn með tryggt sæti í Gulldeild mæta ekki í umferð fara næstu leikmenn í Silfurdeild (3. sæti, 4. sæti o.s.frv.) upp í Gulldeild á þeirra kostnað og þeir falla sjálfkrafa niður um deild og raðast í aðrar deildir út frá meðaltali sínu næst þegar þeir mæta. Nýjasta meðaltal þeirra lækkar um 5%

Þessi tilraun er gerð til þess að sporna við því að leikmaður sem t.d. lendir í 2. sæti í Gulldeild eigi á hættu að raðast í Silfurdeild í næstu umferð þar sem meðaltal hans var lægra en annara í deildinni þrátt fyrir að leikmaðurinn hafi unnið flesta sína leiki. Tilraunaverkefnið verður endurmetið eftir 6. umferð 2023 og ný könnun gerð meðal leikmanna Gull og Silfurdeilda til að meta ánægju nýja fyrirkomulagsins.

Breyting 3
Kopardeild RVK spilar best af 5 leggjum í stað 7

Hingað til hafa efstu 4 deildir í NOVIS deild RVK leikið best af 7 leggjum. Út frá svörum leikmanna í könnun um NOVIS deildina vill meirihluti leikmanna (62,5%) á meðaltals-bilinu 41-50 fækka leggjum í hverjum leik. 37,5% vildi halda áfram í 7 leggjum. Því er lögð fram tillaga um að Kopardeild verði leikin sem best af 5. Aðrar deildir notast við óbreytt fyrirkomulag.

Breytingartillaga 4 (Ennþá til umræðu í stjórn)
Óheimilt að færa sig úr blandaðri deild yfir í deildir kvenna

Færst hefur í aukanna að kvenkyns leikmenn vilji spila í deildum með körlum. Ef kvenkyns leikmaður hefur leikið eina umferð í blandaðri NOVIS deild er óheimilt að skrá sig aftur í deildir kvenna innan sama árs.

Þar sem þessi breytingartillaga er sett fram eftir að ein umferð hefur þegar farið fram á árinu, og skráning í 2. umferð þegar hafin, verður heimilt fyrir kvenkyns leikmenn sem hafa leikið í blandaðri deild að skrá sig í deildir kvenna í 3. umferð. Ef leikmaður hins vegar skráir sig síðan aftur í blandaða deild í 4. eða 5. umferð verður ekki heimilt að skrá sig aftur í deildir kvenna fyrr en á nýju ári.

Þessi breytingatillaga var til umræðu í stjórn en fékk ekki samþykki þar sem aðeins ein skráning barst í NOVIS deild kvenna fyrir 2. umferð 2023. Var því ákveðið að taka þessa umræðu með leikmönnunum sjálfum og taka hana síðan aftur fyrir í stjórn fyrir 3. umferð 2023.

Helgi Pjetur

Recent Posts

Floridana deildin 2025 – 1. umferð – Úrslit

Fyrsta umferð Floridana deildarinnar fór fram á Bullseye Reykjavík og aðstöðu Pílukastfélags Reykjavíkur sunnudaginn 4.…

14 klukkustundir ago

Íslandsmót unglinga – U23 – U18 – U14

Íslandsmót unglinga verður haldið sunnudaginn 25. maí næstkomandi. Það var ráðgert að hafa íslandsmótið unglinga…

6 dagar ago

Floridana deildin NA – 1. umferð 2025 – Áætluð deildaskipting

Hér má sjá áætlaða deildaskiptingu fyrir 1. umferð Floridana deildarinnar NA árið 2025. Fyrirkomulag uppröðunnar…

2 vikur ago

Úrtakshópur landsliðs 2025 Suður-Kórea

Búið er að velja landsliðsúrtakshóp sem mun keppast um að komast í landslið karla og…

2 vikur ago