Charrua á toppnum í mottumars

Það var vel við hæfi að Vitor Charrua hafi sigrað stigamót ÍPS í mottumars enda yfirvaraskegg hans í sérflokki hér á landi!

Vitor sigraði Grindvíkinginn knáa Páll Árna í úrslitaleiknum nokkuð auðveldlega 4-0 og heldur sér á toppi heildar stigalista ÍPS en Halli Egils heldur þó toppsætinu í keppni um að tryggja sig inn í landsliðshópinn sem keppir á HM í Rúmeníu í október.

Alls tóku 28 karlar og 4 konur þátt í mótinu sem fór fram í aðstöðu PFR að Tangarhöfða 2.

Í úrslitum í kvennaflokki sigraði Ingibjörg Magnúsdóttir Diljá Töru 4-0 með 53,2 í meðatal.

Páll Árni fór erfiðu leiðina í úrslitaleikinn en hann sigraði Karl Helga 4-0 í 16 manna úrslitum, Þorgeir Guðmunds 4-3 í 8 manna og Halla Egils 4-2 í undanúrslitum.

Vitor spilaði sinn besta leik í úrslitunum en þar var hann með 75,2 í meðaltal og á leið sinni að titlinum sigraði hann meðal annars nýkrýndan íslandsmeistara í 301 Pétur Guðmundsson 4-1.

Halli Egils átti leik kvöldsins en hann tók 10 pílu leik í riðlakeppninni!

Öll úrslit kvöldsins má skoða hér: https://tv.dartconnect.com/matchlist/idamranking19ko