Categories: FréttirÍslandsmót

Íslandsmót 301 – Úrslit

Íslandsmótið í 301 fór fram helgina 16-17. október í aðstöðu Pílukastfélags Reykjavíkur. Einmenningur karla og kvenna var spilaður á laugardeginum og tvímenningur karla og kvenna á sunnudeginum. Mæting í mótin var mjög góð en um 70 manns gerðu sitt besta til þess að landa þeim titlum sem í boði voru um helgina. Það sannaðist einnig um helgina að pílukast er íþrótt fyrir alla en í fyrsta skiptið var einstaklingur í hjólastól sem tók þátt í mótinu. Pílukast er íþrótt sem vaxið hefur gífurlega síðustu misseri og hafa aldrei fleiri aðildarfélög verið innan ÍPS og ekki sér fyrir endann á þeirri fjölgun.

Það voru keppendur frá Pílukastfélagi Hafnarfjarðar (PFH) sem sigruðu í karla- og kvennaflokki í einmenning. Í karlaflokki sigraði Ástþór Ernir Hrafnsson kollega sinn úr PFH Vitor Charrua 7-4 í úrslitaleiknum en Ástþór, sem var að spila á sínu fyrsta Íslandsmóti í 301, sigraði nokkra öfluga keppendur á leið sinni að titlinum, þar á meðal Íslandsmeistarann frá því 2020 Friðrik Diego. Í undanúrslitum sigraði hann Grindvíkinginn Hörð Þór Guðjónsson og fagnaði síðan vel og innilega þegar hann sigraði úrslitaleikinn. Ástþór spilaði einnig best í riðlakeppninni sem fór fram fyrr um daginn og átti sigurinn svo sannarlega skilið.

Ástþór Ernir Hrafnsson, Íslandsmeistari 301 árið 2021
Frá vinstri: Hörður Þór Guðjónsson PG, Ástþór Ernir Hrafnsson PFH og Vitor Charrua PFH

Í kvennaflokki var kunnulegt nafn á bikarnum en Ingibjörg Magnúsdóttir úr PFH varð Íslandsmeistari í 301 eftir sigur á Brynju Herborgu Jónsdóttur frá Píludeild Þórs 7-4. Ingibjörg var að vinna sinn fjórða Íslandsmeistaratitil í 301 í röð en hún sigraði fyrst árið 2018 og hefur haft tangarhald á bikarnum síðan þá. Á leið sinni að titlinum sigraði hún nýliðann Sóley Eiklund í 16 manna úrslitum, Petreu Kr. Friðriksdóttur í 8 manna úrslitum, Sólveig Daníelsdóttur í undanúrslitum og tapaði einungis einum legg á leið sinn í úrslitaleikinn.

Ingibjörg Magnúsdóttir, Íslandsmeistari kvenna í 301 árið 2021
Frá vinstri: Brynja Björk Jónsdóttir PFH, Ingibjörg Magnúsdóttir PFH og Brynja Herborg Jónsdóttir Píludeild Þórs

Á sunnudeginum fór síðan fram tvímenningur karla og kvenna og mættu 24 lið í karlaflokki og 9 lið í kvennaflokki. Spilaðir voru riðlar og fylgdi útsláttur í kjölfarið. Í karlaflokki sigruðu margfaldir Íslandsmeistarar þeir Þorgeir Guðmundsson PFR og Guðjón Hauksson PG en þeir sigruðu Matthías Örn Friðriksson PG og Björn Steinar Brynjólfsson PG 7-6 í skemmtilegum leik sem fór alla leið í oddalegg og áttu bæði lið pílur til þess að sigra.

Íslandsmeistarar í tvímenningi karla í 301 árið 2021, Þorgeir Guðmundsson PFR og Guðjón Hauksson PG
Frá vinstri: Hörður Þór Guðjónsson PG, Páll Árni Pétursson PG, Þorgeir Guðmundsson PFR, Guðjón Hauksson PG, Matthías Örn Friðriksson PG og Björn Steinar Brynjólfsson PG.

Í tvímenningi kvenna voru það Arna Rut Gunnlaugsdóttir PFR og Brynja Herborg Jónsdóttir Píludeild Þórs sem sigruðu þær Ingibjörgu Magnúsdóttur og Brynju Björk Jónsdóttur 7-5 í úrslitaleiknum. Þær stöllur Arna og Brynja voru að sigra sína fyrstu Íslandsmeistaratitla í tvímenningi kvenna og fögnuðu vel og innilega að leik loknum.

Íslandsmeistarar í 301 tvímenningi kvenna árið 2021, Arna Rut Gunnlaugsdóttir PFR og Brynja Herborg Jónsdóttir Píludeild Þórs.
Frá vinstri: Brynja Björk Jónsdóttir PFH, Ingibjörg Magnúsdóttir PFH, Arna Rut Gunnlaugsdóttir PFR, Brynja Herborg Jónsdóttir Píludeild Þórs, Sara Heimisdóttir PFH og Isabelle Nordskog PFH.

Hægt er að skoða öll úrslit helgarinnar með því að smella HÉR

Upptaka frá beinum útsendingum Live Darts Iceland um helgina má finna á YouTube síðu Live Darts Iceland

ÍPS vill að lokum þakka öllum sem komu að mótinu á einn eða annan hátt og minnum á Stigamótshelgi sem fram fer helgina 6-7. nóvember í aðstöðu Pílufélags Reykjanesbæjar.

ipsdart

Recent Posts

ÍPS auglýsir eftir þjálfara í unglingalandsliðin. (U18 – Drengir og stúlkur)

ÍPS auglýsir eftir þjálfara til að sinna unglingalandsliðum Íslands tímabilið 2025-2027. Mikill vöxtur hefur verið…

3 vikur ago

Úrvalsdeildin í pílukasti – Línur skýrast

Í gær fór fram síðasta kvöldið í Úrvalsdeildinni þar sem línur skýrðust tengt því hvaða…

3 vikur ago

Floridana deildin – 6. umferð – Úrslit

Sjötta umferð Floridana deildarinnar fór fram á Bullseye Reykjavík og aðstöðu Pílukastfélags Reykjavíkur sunnudaginn 24.…

3 vikur ago

Floridana deildin – 6. umferð – Beinar útsendingar

Hér má finna allar beinar útsendingar Live Darts Iceland frá Floridana deildinni í pílukasti. Leikir…

4 vikur ago

Floridana deildin – 6. umferð – Áætluð deildaskipting

Hér má sjá áætlaða deildaskiptingu fyrir 6. umferð Floridana deildarinnar árið 2024. Fyrirkomulag uppröðunnar er…

1 mánuður ago