ÍPS hefur ráðið Jesper Sand Poulsen sem landsliðsþjálfara karla og kvenna. Landsliðsþjálfari gegnir veigamiklu hlutverki í afreksstarfi sambandsins en hann mun koma til með að velja úrtakshópa sem og lokahópa sem keppa fyrir Íslands hönd. Næsta landsliðsverkefni er Norðurlandamótið (Nordic Cup) sem haldið verður dagana 26-29 maí 2022 í Svíþjóð.
Sambandið hafði áður gefið út að stigalisti sambandsins yrði notaður við val á landsliðum Íslands fyrir Norðurlandamótið en það fyrirkomulag mun breytast í kjölfarið. Úrtakshópur karla og kvenna verður valinn og kynntur á fyrri hluta næsta árs og munu landslið Íslands í karla og kvennaflokki verða kynnt í lok mars.
Þar sem ekki er búið að gefa út staðfestar dagsetningar fyrir EM og HM er ekki hægt að gefa dagsetningar á hvenær landslið Íslands verða valin fyrir þau verkefni en stefnt er á því að nýir úrtakshópar verði valdir um leið og landsliðsverkefni lýkur og landsliðin valin amk. 2 mánuðum fyrir mót.
Jesper Sand Poulsen er 41 árs og er búsettur á Eskifirði. Hann býr þar ásamt Maríu Hjálmarsdóttur og eiga þau saman tvö börn. Hann vinnur sem rekstrarstjóri hjá Rubix og hefur unnið þar síðan 2013. Hann er formaður og einn stofnenda Píluklúbbs Austurlands.
,,Ég hlakka til að vera hluti að liði sem mun móta íþróttina í framtíðinni og auka áhuga á henni. Ég hef enga ástæðu til að áætla annað en að íþróttin geti vaxið svipað og hún hefur verið að gera undanfarin tvö ár. Ég hef tekið eftir mikið af nýjum spilurum sem hafa metnað og burði til þess að ná langt í íþróttinni og ég hlakkar til að fylgjast með á komandi misserum” sagði Jesper við undirskrift samnings við ÍPS.
ÍPS fagnar komu Jespers og hlakkar til samstarfsins og í sameiningu að koma Íslandi á heimskortið í pílukasti. Við ráðninguna óskaði Jesper eftir því að fá að hætta í stjórn ÍPS. Stjórn ÍPS varð við þeirri beiðni og Ásgrímur Harðarson varamaður kemur því inn í stjórnina fram að næsta aðalfundi.
Fyrsta umferð Floridana deildarinnar fór fram á Bullseye Reykjavík og aðstöðu Pílukastfélags Reykjavíkur sunnudaginn 4.…
Íslandsmót unglinga verður haldið sunnudaginn 25. maí næstkomandi. Það var ráðgert að hafa íslandsmótið unglinga…
Hér má sjá áætlaða deildaskiptingu fyrir 1. umferð Floridana deildarinnar NA árið 2025. Fyrirkomulag uppröðunnar…
Búið er að velja landsliðsúrtakshóp sem mun keppast um að komast í landslið karla og…