Pétur Rúðrik Guðmundsson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Íslands í meistaraflokki karla og kvenna. Hann tekur við starfinu af Kristjáni Sigurðssyni sem sagði starfi sínu lausu fyrr í haust. Stjórn ÍPS fékk Helga Pjetur fyrrverandi stjórnarmann ásamt Magnúsi Gunnlaugssyni til að stýra viðtölum við þá sem sóttu um og voru hann ásamt stjórn ÍPS sem tóku ákvörðunina um að ráða Pétur en alls bárust 2 umsóknir um stöðuna. Þar sem 2 núverandi stjórnarmeðlimir ÍPS voru í landsliði Íslands sem keppti á WDF World Cup í haust drógu þeir sig í hlé og voru ekki með í ákvörðuninni til að gæta hlutleysis.
Pétur Rúðrik er þaulreyndur pílukastari og margoft keppt fyrir Íslands hönd. Hann á að baki einn Íslandsmeistaratitil í 501 einmenning og einn í tvímenning 501 ásamt fleiri titlum en hann hefur kastað pílu frá árinu 2015. Fréttaritari ÍPS tók Pétur á tal eftir að honum var kunngjört um ráðninguna.
Hver eru þín fyrstu viðbrögð eftir ráðninguna?
Ég er mjög þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt og er virkilega spenntur að takast á við þetta verkefni.
Pílukast á Íslandi hefur tekið gríðalegum framförum undanfarin ár. Fjöldi þeirra sem eru að stunda pílu eru orðnir fleiri og pílukösturum í hæðsta gæðaflokki á Íslandi hefur fjölgað umtalsvert. Hér áður fyrr áttum við mjög öfluga spilara en samkeppnin var ekki eins öflug og hún er í dag. Það eru fleiri gæðaspilarar í dag sem gera tilkall til landsliðsins og það gerir þetta enn meiri spennandi að mínu mati.
Nú hefur þú unnið gríðarlega öflugt starf með landslið Íslands í U18, hvernig viltu sjá eftirmann þinn í því starfi halda áfram uppbyggingunni?
Unglingastarf á Íslandi hefur einnig tekið miklum framförum á skömmum tíma. Í raun var ekkert skipulagt unglingastarf í gangi árið 2015 en í dag eru félögin byrjuð með skipulagt unglingastarf og einnig eru komin valfög í grunnskóla tengt pílukasti. Það eru komin á föst unglingamót þar sem töluverður fjöldi allstaðar af landinu er að mæta á.
Ég væri til í að sjá öll félögin innan ÍPS vinna að því að koma á fót unglingastarfi með reglulegum æfingum og mótum. ÍPS þarf að vera leiðandi í því starfi og styðja við félögin með því að landsliðsþjálfarar og landsliðsfólk mæti til félaganna og hjálpi til við að byrja unglingastarfið. Það er hægt að gera með námskeiðum, kynningu á pílukasti hjá félögunum og allskonar viðburðum þar sem áherslan er á að kynna íþróttina sem fjölskylduíþrótt.
Við erum komin með góðan grunn til að efla og styrkja unglingastarfið og núna þurfum við að setja áherslu á að auka veg unglingastarfs á Íslandi enn frekar. Ég sé fyrir mér meira samstarf á milli unglingalandsliðsins og A-landsliðana. Þar sem unglingarnir fá tækifæri til að læra af þeim sem eru í A-landsliðunum og bæði æfa og keppa með þeim á æfingum.
Við erum þegar farin að sjá afrekstur unglingastarfsins þar sem Alexander Veigar sem er 19 ára gamall og er margfaldur Íslandsmeistari unglinga og er nú þegar farin að sýna að hann er einn besti pílukastari landsins. Hann vann sér sæti í A-landsliðinu á WDF World Cup á þessu ári og nýlega vann hann ÍPS deildina með glæsibrag. Einnig vorum við að senda stúlkur í fyrsta skipti í keppni í unglingalandsliðinu og stóðu Emilía Hafdal Kristinsdóttir og Birna Rós Daníelsdóttir sig ótrúlega vel. Við erum með aðila í afrekshóp unglingalandsliðsins sem eru að vinna sína riðla í ÍPS deildinni þar sem þeir eru að keppa við fullorðna.
Þetta sýnir að framtíðin er björt hjá íslensku pílukasti en við þurfum auðvitað að hlúa vel að því góða sem er verið að gera af svo mörgum í hreyfingunni í dag. Ef við ætlum að gera það sem Ísland er þekkt fyrir tengt íþróttum sem er að vera með íþróttafólk í pílukasti í fremstu röð, þá þurfum við að taka næstu skref. Fyrir mér er næsta skref að efla enn frekar unglingastarf hjá félögunum og fjölga iðkenndum þar enn frekar.
Ertu kominn með hugmynd að skipulagi fyrir æfingar og val í úrtakshópa?
Ég er svo til nýbúin að fá staðfestingu á að ég verði landsliðsþjálfari og því enn að fullmóta hvernig ég sé þetta fyrir mér en að sjálfsögðu hef ég ákveðnar hugmyndir hvernig ég vil standa að skipulagi og æfingum tengt valinu.
Ég hef þjálfað pílu frá því 2015 og hef verið þjálfari í ca. 25 ár og því nokkuð sjóaður þegar kemur að þjálfun. Í dag erum við með marga góða pílukastara og því mikilvægt að gefa þeim sem vilja ná árangri og verða betri í pílukasti tækifæri til að sýna sig. Það er best að gera það með því að skrá sig í aðildarfélag hjá ÍPS og mæta á mót á vegum ÍPS þar sem pílukastarar geta sýnt gæðin sín og fyrir hvað þau standa.
Næsta verkefni landsliðsins er WDF Nordic Cup sem verður haldið hér á Íslandi og mun ég fljótlega í samráði við ÍPS vera í sambandi við aðildarfélögin til að kynna fyrir þeim hvernig skipulag og ákvörðun við val á pílukösturum í úrtakshóp til landsliðs verður. Einnig þeir pílukastarar sem ég tel nú þegar að eigi heima í þeim úrtakshópi mun ég vera í sambandi við fljótlega og bjóða þeim að taka þátt í þessu verkefni fyrir Íslands hönd.
Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?
Framundan eru spennandi tímar og er ég bæði glaður og stoltur að fá að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu á pílukasti á Íslandi sem hefur verið í gangi undanfarin ár. Ég tel að við eigum að stefna hátt bæði hjá unglingalandsliðinu sem og A-landsliðunum á næstu árum. Ég sé fyrir mér að við munum eignast sigurvegara í stórmótum á erlendri grundu á næstu þremur árum. Til þess að það gerist þá þurfa landsliðsþjálfarar, leikmenn og aðrir sem koma að landsliðunum að æfa, keppa með þetta markmið að leiðarljósi og samhliða því að huga vel að bæði líkama og sál.
Ég veit að það er mikill metnaður til staðar og ég veit að við munum öll gera það sem þarf til að þetta geti orðið að veruleika.
Stjórn ÍPS hlakkar mikið til samstarfsins við Pétur en framundan er WDF Nordic Cup sem haldið verður á Íslandi í maí á næsta ári ásamt WDF Europe Cup sem haldið verður í Slóvakíu í september.
Þar sem Pétur var landsliðsþjálfari U18 í drengjaflokki fyrir ráðninguna hefur sú staða því losnað og mun verða auglýst á næstu misserum.
Íslandsmótið í 501 tvímenning fór fram síðastliðinn sunnudag á Bullseye Reykjavík en um 100 manns…
Hér má finna allar beinar útsendingar Live Darts Iceland frá Íslandsmótinu í 501 en í…
5. og næstsíðasta umferð Floridana deildarinnar fór fram á Bullseye Reykjavík og í aðstöðu Píludeildar…
Hér má finna allar beinar útsendingar Live Darts Iceland frá Floridana deildinni í pílukasti. Leikir…