Það verða Grindvíkingarnir Páll Árni Pétursson og Matthías Örn Friðriksson sem keppa til úrslita á Reykjavík International Games en þetta er annað árið í röð sem pílukast er hluti af leikjunum. Í kvennaflokki keppa síðan til úrslita Ingibjörg Magnúsdóttir frá Pílukastfélagi Hafnarfjarðar og Sólveig Daníelsdóttir frá Pílukastfélagi Reykjavíkur.
Mótið var langstærsta pílumót sem haldið hefur verið á Íslandi en 112 karlar og 16 konur voru skráðar til leiks um helgina. Keppt var á Bullseye Reykjavík sem staðsett er á Snorrabraut 37 en þessi gamli bíósalur er orðinn einn glæsilegasti pílustaður í Evrópu. Alls voru 21 píluspjald á keppnissvæðinu í stóra salnum og annað eins á efri og neðri hæð staðarins en Bullseye býður uppá pílukast fyrir alla, byrjendur sem lengra komna ásamt íþróttaútsendingum á risaskjám og fjölbreyttum matseðli.
Í karlaflokki sigruðu bæði Matthías og Páll alla sína leiki í riðlinum án þess að tapa legg en riðlakeppni karla og kvenna var spiluð á laugardeginum. Ingibjörg tapaði einungis einum leik í sínum riðli en Sólveig tveimur og komust þær því nokkuð örugglega áfram í útsláttarhluta keppninnar en hún fór fram í gær sunnudag.
Leið Páls að úrslitaleiknum var nokkuð greið en hann sigraði Gísla Veltan (PFR), Jesper Poulsen (PFF), Zbigniev Nosek (án félags) á leið sinni í 8 manna úrslit. Þar sigraði hann félaga sinn í Pílufélagi Grindavíkur Pétur Rúðrik Guðmundsson 5-2. Í undanúrslitaleiknum keppti hann við margfaldan Íslandsmeistara í Guðjóni Haukssyni en sá leikur var æsispennandi og fór alla leið í oddalegg. Guðjón átti pílur til að sigra en hitti ekki og Páll tók út 40 og sigraði leikinn 6-5 og tryggði sig þannig inní úrslitaleikinn. Páll var með meðaltalið 63,02 í útslættinum, hitti 1x 180 og hæsta útskot hjá honum var 120.
Í úrslitaleiknum mætir hann Matthíasi Erni Friðrikssyni, núverandi Íslandsmeistara í pílukasti en þeir eru báðir félagar í Pílufélagi Grindavíkur. Matthías sigraði á leið sinni þá Sverri Þór Guðmundsson (PFA), Jón Björn Ríkharðsson (PFR) og Svein Skorra Höskuldsson (PFR) nokkuð örugglega. Í fjórðungsúrslitum mætti hann tvöföldum Íslandsmeistara í Þorgeiri Guðmundssyni (PFR) og var Þorgeir kominn í 4-2 forystu. Matthías náði að jafna leikinn í 4-4 og tók út 56 í oddaleggnum fyrir sigrinum. Í undanúrslitum mætti hann síðan Hallgrími Egilssyni (PFR) og aftur kom Matthías til baka en Hallgrímur komst í 3-0 áður en Matthías vann sinn fyrsta legg. Staðan varð síðan 4-1 en Matthías náði að jafna í 4-4 en Hallgrímur tók út 129 til að komast í 5-4. Matthías jafnaði í 5-5 og fór því leikurinn í oddalegg. Þar átti Hallgrímur 3 pílur til að sigra en hitti ekki og Matthías tók út 98 fyrir sigrinum á tvöföldum 19. Matthías var með 71,06 í meðaltal í útslættinum, hitti 7x 180 og hæsta útskot 120.
Það stefnir því allt í hörku úrslitaleik á milli þeirra Páls og Matthíasar en hann verður sýndur í beinni útsendingu hjá RÚV2 miðvikudagskvöldið 3. febrúar næstkomandi, en spilað verður á Bullseye Reykjavík.
Í kvennaflokki keppa þær Sólveig Daníelsdóttir (PFR) og Ingibjörg Magnúsdóttir (PFH) til úrslita. Sólveig sigraði Brynju Jónsdóttir (PFH) í undanúrslitum en Ingibjörg sigraði Brynju Jónsdóttir (Píludeild Þórs). Því miður var ekki mögulegt að ná tölfræðiupplýsingum úr leikjum í kvennaflokki.
Íslenska pílukastsambandið vill að lokum þakka þeim fjölmörgu sem tóku þátt í að gera þetta mót að veruleika og bendir öllum á að stilla á RÚV2 á miðvikudagskvöldið en þá verður sannkölluð píluveisla í boði þar sem Reykjavíkurmeistarar karla og kvenna verða krýndir.
Íslandsmótið í 501 tvímenning fór fram síðastliðinn sunnudag á Bullseye Reykjavík en um 100 manns…
Hér má finna allar beinar útsendingar Live Darts Iceland frá Íslandsmótinu í 501 en í…
5. og næstsíðasta umferð Floridana deildarinnar fór fram á Bullseye Reykjavík og í aðstöðu Píludeildar…
Hér má finna allar beinar útsendingar Live Darts Iceland frá Floridana deildinni í pílukasti. Leikir…