
Íslandsmót félagsliða 2023 fór fram með pompi og prakt um síðastliðna helgi á Bullseye Reykjavík en 8 aðildarfélög ÍPS í karlaflokki tóku þátt og 5 af þeim sendu einnig inn kvennalið. Keppt var því um 2 Íslandsmeistaratitla, í karla- og kvennaflokki. Á laugardag var keppt í tvímenning og einmenning og á sunnudag var haldið áfram keppni í einmenning og í kjölfarið var liðamót spilað. Aðildarfélögin söfnuðu sér stigum eftir því hve langt keppendur frá þeim komust í hverri grein fyrir sig og eftir liðamótið kom í ljós hvaða félög yrðu Íslandsmeistarar.
Í karlaflokki var það Pílufélag Grindavíkur sem tryggði sér titilinn, 3ja árið í röð. Í tvímenning komust öll pör félagsins í 8 liða úrslit en þeir Guðmundur Valur Sigurðsson og Guðjón Sigurðsson komust í undanúrslit. Það var síðan Alexander Veigar Þorvaldsson sem gerði sér lítið fyrir og sigraði einmenninginn með 84 í meðaltal í úrslitaleiknum. Í liðamótinu var það síðan A lið félagsins sem gulltryggði Íslandsmeistaratitilinn með sigri á A liði Pílukastfélags Reykjavíkur í úrslitaleiknum. A liðið var skipað þeim Matthíasi Erni Friðrikssyni, Birni Steinar Brynjólfssyni, Guðmundi Val Sigurðssyni og Atla Kolbeini Atlasyni.
Í kvennaflokki var það Pílukastfélag Hafnarfjarðar sem varð Íslandsmeistari. Í tvímenning komust þær Ingibjörg Magnúsdóttir og Brynja Björk Jónsdóttir í úrslit en þurftu að sætta sig við 2-4 tap í úrslitaleiknum. Í einmenning komust þær lengst í 8 manna úrslit en þær komu sterkar til leiks í liðmótinu og sigruðu PR í úrslitaleiknum og dugði það til að hampa Íslandsmeistaratitlinum. Lið PFH var skipað þeim Ingibjörgu Magnúsdóttur, Brynju Björk Jónsdóttur, Söru Heimisdóttur og Hörpu Nóadóttur.
Sigurvegarar allra mótshluta má sjá hér:
Tvímenningur kvenna: Petrea Friðriksdóttir og Brynja Herborg (PFR)
Tvímenningur karla: Siggi Tomm og Gunnar H. Ólafsson (PFA)
Einmenningur kvenna: Brynja Herborg (PFR)
Einmenningur karla: Alexander Veigar Þorvaldsson (PG)
Liðamót kvenna: Pílukastfélag Hafnarfjarðar
Liðamót kvenna: A lið Pílufélags Grindavíkur
ÍPS vill þakka siguvegurum helgarinnar innilega til hamingju og miklar þakkir sendar til allra þeirra sem aðstoðuðu á einn eða annan hátt.
Næst á dagskrá eru 8 manna úrslit Úrvalsdeildarinnar en þau fara fram í kvöld þriðjudag á Bullseye og verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport kl. 19:30.
Hér fyrir neðan má sjá lokastigatöfluna ásamt myndum af sigurvegurum og öllum liðum:










