Sæl kæru félagsmenn/konur og annað píluáhugafólk.

Næstkomandi laugardag 8. mars verður haldið Píluþing ÍPS í fyrsta skipti og verður það haldið í píluaðstöðu PFR að Tangarhöfða 2 í Reykjavík.

Píluþingið er afrakstur nýrra laga sem var samþykkt á síðasta aðalfundi (auka-aðalfundi) árið 2024. Í stað þess að halda aðalfund, þá verður píluþing á hverju ári þar sem kjörnir fulltrúar aðildarfélaganna hafa málsrétt og kosningarrétt samkvæmt lögum ÍPS. Þetta er í anda þess sem önnur sérsambönd eru að gera og vonumst við til að með tíð og tíma að þá þróum við þetta í sameiningu þar sem hagsmunir pílunnar fái að njóta sín og vaxa enn frekar.

Boðað var til píluþings löglega samkvæmt nýju lögunum og hægt er að skoða þau hér.
https://dart.is/ips/log-ips/

Aðildarfélögin hafa sent inn tillögur að breytingu og verður unnið með þær breytingar á þinginu. Hugmyndafræðin með þessum breytingum er m.a. til að virkja aðildarfélögin til að taka umræðuna innan sinna raða og koma svo á þingið þar sem við vinnum öll saman að því að efla og styrkja enn frekar okkar ástkæru íþrótt.

Ef einhverjir hafa áhuga á að starfa fyrir ÍPS hvort sem það er í stjórn, nefndum eða bara almennt að aðstoða ÍPS þá biðjum við ykkur vinsamlegast að senda okkur tölvupóst á dart@dart.is og/eða ræða við félögin ykkar og segja þeim frá áhuga ykkar á starfinu.

Vöxtur pílunnar á Íslandi hefur verið mikill undanfarin ár og hefur mikið af góðu fólki lagt hönd á plóginn við að gera pílukast að alvöru íþrótt sem er í sífelldum vexti. Til að við getum bæði náð enn betur utan um þau verkefni sem við erum að sinna nú þegar og gera okkur klár í þau verkefni sem eru framundan þá þarf alltaf áhugasamt og heiðarlegt fólk sem er tilbúið að vinna með hag pílusamfélagsins í huga.

Það er enginn sem getur allt en allir geta gert eitthvað!

Það verður streymt frá píluþinginu fyrir áhugasama og við munum auglýsa þann tengil á laugardaginn á heimasíðu okkar og Facebooksíðu. Ef þið viljið mæta á þingið sem áhorfendur þá er gott ef þið tilkynnið það annaðhvort með því að láta félagið ykkar vita eða senda okkur á dart@dart.is að þið ætlið að koma og fylgjast með.

Við áréttum engu að síður að það eru eingöngu kjörnir fulltrúar félaganna samkvæmt lögum ÍPS sem hafa málsrétt og kosningarrétt á þinginu.

Píluþingið er hugsað sem vettvangur þar sem aðildarfélögin hittast og við setjum andlit við nöfnin sem við eigum í samskipti við tengt pílunni. Einnig til að vinna að sameiginlegri uppbyggingu á pílukasti á Íslandi. Við gerum ráð fyrir að framtíðarþing okkar verði þannig og við getum öll hist og átt ánægjulega stund saman þar sem við hugum að eflingu okkar stórkostlegu íþróttar til framtíðar.

Með vinsemd og virðingu
Stjórn ÍPS