Íslandsmót

Íslandsmótið í pílukasti – Úrslit

Það voru þau Ingibjörg Magnúsdóttir (Pílukastfélagi Hafnarfjarðar) og Matthías Örn Friðriksson (Pílufélagi Grindavíkur) sem urðu Íslandsmeistarar í pílukasti 2021 en mótið var haldið um seinustu helgi á Bullseye, Snorrabraut. Mótið var eitt það stærsta sem haldið hefur verið á Íslandi og vinsældir íþróttarinnar hafa aukist gríðarlega á undanförnum misserum. Yfir 100 manns í heildina tóku þátt í mótinu og var um 30% aukning á keppendum frá því í fyrra.

Ingibjörg varð Íslandsmeistari í fjórða sinn á ferlinum en Matthías varð fyrsti pílukastarinn síðan 2010 til að verja titilinn en hann varð einnig Íslandsmeistari árið 2020.

Ingibjörg spilaði heilt yfir best allra kvenna í mótinu. Hún var með 52,86 að meðaltali, tók einnig út hæsta útskotið (100) og átti einnig fæstar pílur (19 pílur). Svipað var uppá teningnum í karlaflokki en Matthías var með hæsta meðaltalið (72,01), tók flest 180 (6) og átti annað hæsta útskotið (130).

Ingibjörg átti greiða leið í úrslitaleikinn en hún sigraði Petreu Friðriksdóttur (PFR) 5-0 í fjórðungsúrslitum og Örnu Rut Gunnlaugsdóttur (PFR) 6-1 í undanúrslitum. Í úrslitaleiknum mætti hún Brynju Herborgu Jónsdóttur (Píludeild Þórs) og fór sá leikur alla leið í oddalegg en Ingibjörg nýtti alla sína reynslu og tók út 40 og tryggði titilinn í fjórða sinn eins og áður sagði.

Ingibjörg Magnúsdóttir

Matthías átti sömuleiðis nokkuð greiða leið í úrslitaleikinn. í 64 manna úrslitum sigraði hann Gylfa Þór Gylfason (PFA) 5-0, Kristján Þorsteinsson (PFR) 5-1 í 32 manna úrslitum, Viðar Valdimarsson (Píludeild Þórs) 5-2 í 16 manna úrslitum, Þorgeir Guðmundsson (PFR) 5-0 í fjórðungsúrslitum og Kristján Sigurðsson (PFR) 6-4 í undanúrslitum. Úrslitaleikur karla var ekki jafn spennandi og kvenna en þar sigraði hann Pál Árna Pétursson (Pílufélag Grindavíkur) 7-2 og varði þar með titilinn.

Matthías Örn Friðriksson

Á föstudeginum var spilaður tvímenningur og urðu þær Ingibjörg Magnúsdóttir og Brynja Björk Jónsdóttir úr PFH Íslandsmeistarar kvenna eftir 6-0 sigur í úrslitaleiknum á móti Örnu Rut Gunnlaugsdóttur og Maríu Steinunni Jóhannesdóttur úr PFR. Í tvímenningi karla spiluðu þeir Vitor Charrua úr PFH og Hallgrímur Egilsson úr PFR á móti Grindvíkingunum Matthíasi Erni Friðrikssyni og Birni Steinari Brynjólfssyni. Leikurinn var spennandi framan af en Vitor og Hallgrímur voru sterkari á lokasprettinum og sigruðu að lokum 6-3.

Ingibjörg Magnúsdóttir og Brynja Björk Jónsdóttir
Hallgrímur Egilsson og Vitor Charrua

Hægt er að horfa á útsendingu frá allri helginni á YouTube síðu Live Darts Iceland með því að smella HÉR

Stjórn ÍPS vill að lokum þakka öllum sem tóku þátt á mótinu og öllum þeim sem komu að mótinu á einn eða annan hátt. Næst á dagskrá er Íslandsmót unglinga 2021 sem haldið verður á Akureyri 22. maí næstkomandi.

ipsdart

Recent Posts

Floridana deildin 2025 – 1. umferð – Úrslit

Fyrsta umferð Floridana deildarinnar fór fram á Bullseye Reykjavík og aðstöðu Pílukastfélags Reykjavíkur sunnudaginn 4.…

2 dagar ago

Íslandsmót unglinga – U23 – U18 – U14

Íslandsmót unglinga verður haldið sunnudaginn 25. maí næstkomandi. Það var ráðgert að hafa íslandsmótið unglinga…

7 dagar ago

Floridana deildin NA – 1. umferð 2025 – Áætluð deildaskipting

Hér má sjá áætlaða deildaskiptingu fyrir 1. umferð Floridana deildarinnar NA árið 2025. Fyrirkomulag uppröðunnar…

2 vikur ago

Úrtakshópur landsliðs 2025 Suður-Kórea

Búið er að velja landsliðsúrtakshóp sem mun keppast um að komast í landslið karla og…

2 vikur ago