Það voru þau Ingibjörg Magnúsdóttir (Pílukastfélagi Hafnarfjarðar) og Matthías Örn Friðriksson (Pílufélagi Grindavíkur) sem urðu Íslandsmeistarar í pílukasti 2021 en mótið var haldið um seinustu helgi á Bullseye, Snorrabraut. Mótið var eitt það stærsta sem haldið hefur verið á Íslandi og vinsældir íþróttarinnar hafa aukist gríðarlega á undanförnum misserum. Yfir 100 manns í heildina tóku þátt í mótinu og var um 30% aukning á keppendum frá því í fyrra.
Ingibjörg varð Íslandsmeistari í fjórða sinn á ferlinum en Matthías varð fyrsti pílukastarinn síðan 2010 til að verja titilinn en hann varð einnig Íslandsmeistari árið 2020.
Ingibjörg spilaði heilt yfir best allra kvenna í mótinu. Hún var með 52,86 að meðaltali, tók einnig út hæsta útskotið (100) og átti einnig fæstar pílur (19 pílur). Svipað var uppá teningnum í karlaflokki en Matthías var með hæsta meðaltalið (72,01), tók flest 180 (6) og átti annað hæsta útskotið (130).
Ingibjörg átti greiða leið í úrslitaleikinn en hún sigraði Petreu Friðriksdóttur (PFR) 5-0 í fjórðungsúrslitum og Örnu Rut Gunnlaugsdóttur (PFR) 6-1 í undanúrslitum. Í úrslitaleiknum mætti hún Brynju Herborgu Jónsdóttur (Píludeild Þórs) og fór sá leikur alla leið í oddalegg en Ingibjörg nýtti alla sína reynslu og tók út 40 og tryggði titilinn í fjórða sinn eins og áður sagði.
Matthías átti sömuleiðis nokkuð greiða leið í úrslitaleikinn. í 64 manna úrslitum sigraði hann Gylfa Þór Gylfason (PFA) 5-0, Kristján Þorsteinsson (PFR) 5-1 í 32 manna úrslitum, Viðar Valdimarsson (Píludeild Þórs) 5-2 í 16 manna úrslitum, Þorgeir Guðmundsson (PFR) 5-0 í fjórðungsúrslitum og Kristján Sigurðsson (PFR) 6-4 í undanúrslitum. Úrslitaleikur karla var ekki jafn spennandi og kvenna en þar sigraði hann Pál Árna Pétursson (Pílufélag Grindavíkur) 7-2 og varði þar með titilinn.
Á föstudeginum var spilaður tvímenningur og urðu þær Ingibjörg Magnúsdóttir og Brynja Björk Jónsdóttir úr PFH Íslandsmeistarar kvenna eftir 6-0 sigur í úrslitaleiknum á móti Örnu Rut Gunnlaugsdóttur og Maríu Steinunni Jóhannesdóttur úr PFR. Í tvímenningi karla spiluðu þeir Vitor Charrua úr PFH og Hallgrímur Egilsson úr PFR á móti Grindvíkingunum Matthíasi Erni Friðrikssyni og Birni Steinari Brynjólfssyni. Leikurinn var spennandi framan af en Vitor og Hallgrímur voru sterkari á lokasprettinum og sigruðu að lokum 6-3.
Hægt er að horfa á útsendingu frá allri helginni á YouTube síðu Live Darts Iceland með því að smella HÉR
Stjórn ÍPS vill að lokum þakka öllum sem tóku þátt á mótinu og öllum þeim sem komu að mótinu á einn eða annan hátt. Næst á dagskrá er Íslandsmót unglinga 2021 sem haldið verður á Akureyri 22. maí næstkomandi.
Fyrsta umferð Floridana deildarinnar fór fram á Bullseye Reykjavík og aðstöðu Pílukastfélags Reykjavíkur sunnudaginn 4.…
Íslandsmót unglinga verður haldið sunnudaginn 25. maí næstkomandi. Það var ráðgert að hafa íslandsmótið unglinga…
Hér má sjá áætlaða deildaskiptingu fyrir 1. umferð Floridana deildarinnar NA árið 2025. Fyrirkomulag uppröðunnar…
Búið er að velja landsliðsúrtakshóp sem mun keppast um að komast í landslið karla og…