Landslið Íslands skipað leikmönnum undir 18 ára tóku þátt í Evrópumóti (Eurocup) 5. – 8. júlí 2023. Í fyrsta skipti sendi Ísland kvennalið í þessum aldursflokki, en þær Emilía Rós Kristinsdóttir og Birna Rós Daníelsdóttir gerðu sér lítið fyrir og náðu 7. sæti á Evrópumótinu fyrir Íslands hönd. ÍPS óskar þeim innilega til hamingju með frábæran árangur.

Birna Rós (vinstri) og Emilía Rós (hægri)

Hér að neðan er ferðasaga og upplýsingar um gengi liðsins frá Pétri Rúðrik, landsliðsþjálfara U18 karla.

Lagt var af stað til Austurríkis með Wizzair á þriðjudeginum 4. júlí. Í ferðinni voru sex keppendur (4 drengir og 2 stúlkur), tveir þjálfarar (Pétur og Brynja) og svo Kiddi og Árni sem voru bæði þarna til halds og trausts fyrir stúlkurnar ásamt því að vera stuðningssveit liðsins. 

Við lentum seint og því var strax farið að sofa þegar komið var á hótelið eða öllu heldur þá hélt ég að allir hefðu farið að sofa enda klukkan um miðnæti og það var rætt um að við keyptum samlokur eða eitthvað á flugvellinum áður en við færum á hótelið. Við vorum öll frekar svöng þegar þangað var komið og það sem var hægt að fá á hótelinu á þessum tíma var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Strákarnir voru svo svangir að þeir athuguðu hvort það væri eitthvað opið á þessu tíma og viti menn, McDonalds var opið og ekkert svo langt frá. Þeir voru fljótir að fá leyfi frá Brynju til að ná sér í smá heilsufæði. 😊

Á miðvikudeginum kl:17:00 var fundur hjá þjálfurum/liðsstjórum þar sem farið var yfir reglur og annað sem viðkom mótinu og fengu krakkarnir frjálsan tíma fram að þeim fundi. Ég er nokkuð öruggur að þau fóru flest öll á McDonalds aftur, jafnvel þó að það væri í boði morgun-, hádegis- og kvöldmatur handa þeim öllum, þá held ég að McDonalds hlutabréfin hér í Austurríki hafi hækkað töluvert þar sem allir krakkarnir í mótinu gerðu sér ferð þangað reglulega. 😊

Á fimmtudeginum var smá óvænt heimsókn frá PDC stjörnu Íslands en Vitor gerði sér lítið fyrir og keyrði í 3-4 klst. til að koma og styðja liðið. Hann stóð sig með stakri prýði og var mikil hvatning fyrir þau. Hann var bæði að hvetja og einnig að leiðbeina þegar tími gafst til. Ómetanlegt að fá svona heimsókn. 😊

PDC stjarnan Vitor Charrua að borða súpu

Síðan var komið að kynningum á liðunum þar sem þau ganga öll inn í landsliðstreyjum við undirspil sem löndin velja sjálf. Hjá okkur hljómaði Steindi Jr. undir með erfiðasta Karaoke lag sem til er. (The Hardest Karaoke Song in the World) –  https://www.facebook.com/inspiredbyiceland/videos/1695672810452385/

Þetta kom bara nokkuð vel út og landslið okkar tók sig vel út á pallinum.

Þegar kynningunni var lokið var farið að snæða og í framhaldi fengu þau frjálsan tíma sem var nýttur til að kasta pílu, skoða umhverfið í kring eða bara einfaldlega slaka á fyrir komandi átök. Allir áttu að vera komnir upp í herbergi kl:23:00 og huga að svefninum til að vakna fersk og kát í morgungönguna. 

Allir ætluðu að hittast kl: 06:30 í lobbyinu og taka stutta morgungöngu og svo í morgunmat. Það var pínu skemmtilegt að sjá metnaðinn hjá krökkunum sem sýndi sig í ýmsum myndum. Ein af þeim var að þegar við komum niður þá var Gunnar byrjaður að æfa sig fyrir daginn en hann mætti þegar salurinn opnaði klukkan 06:00 og náði að kasta aðeins áður en við fórum í morgungönguna. Það mættu allir, bæði leikmenn, þjálfarar, forráðamenn og einnig PDC stjarnan okkar. Þetta var hressandi ganga og við ákváðum að gera þetta alla keppnisdagana. (Sjá video á Facebooksíðu).

Eftir morgunmatinn þá fóru allir að undirbúa sig og gera sig tilbúin í keppnina. Drengirnir áttu eftir að spila í einmenning og tvímenning á fimmtudeginum og stúlkurnar spiluðu tvímenning. Drengirnir náðu sér ekki allir á strik, það var helst Gunnar sem spilaði sinn leik en þeir báru sig allir vel á línunni og létu ekkert trufla sig þó að þeir voru ekki að hitta eins og venjulega. 

Það sama var ekki hægt að segja um stúlkurnar, þær spiluðu vel og náðu frábærum árangri með því að komast upp úr riðlunum. Birna og Emilía töpuðu i 8 liða úrslitum a móti tyrkjum sem voru gríðalega sterkar og enduðu þær með að vinna tvímenningin. Glæsilegur árangur hjá þeim en það má nefna það að þetta er í fyrsta skiptið sem við náum að senda U18 stúlkna lið á Eurocup.

Krökkunum barst síðan kveðja frá nokkrum af okkar bestu pílukösturum heima á Íslandi þar sem þau voru hvött til dáða. Sjá myndband.

Um kvöldið var keppt í margrómaða Managercup sem er alltaf haldin samhliða þessu móti. Þeta er smá uppbrot sem krökkunum finnst skemmtilegt og eru lætin mikil í þeim þegar þau styðja sína þjálfara. Pétur og Brynja tókum þátt og Brynja vann fyrsta leikinn sinn en var óhepinn i leik tvö og datt út í 32 manna úrslitum. Pétur endaði með að sigra mótið og er því managercup meistari árið 2023.🏆

Á degi tvö var keppt í liðakeppni drengja og einmenning stúlkna og það var greinilegt að reynslan sem þau fengu öll fyrsta daginn var að skila sér. Þau voru öll rólegri og náðu betri spilamennsku á degi tvö í mótinu. Drengirnir áttu sína spretti en voru í sterkum riðli og náðu ekki að sigar leik. Þeir voru engu að síður allir að spila betur og með örlítilli heppni hefðu köstin getað dottið okkar megin og þeir náð að sigra, sérstaklega á móti Danmörku. En það tókst ekki og það er alltaf næsta ár. 😊 Stúlkurnar voru einnig að spila vel og þá sérstaklega Emilía sem gerði sér lítið fyrir og komst upp úr riðlinum. Hún tapaði svo í 16 manna úrslitum á móti tyrkneskri stúlku sem fór alla leið í úrslitaleikinn. Frábær árangur hjá henni og til hamingju með þetta. 

Á laugardeginum þá var keppt til úrslita og þar horfðu þau flest á leikina ásamt því að nýta þann frjálsa tíma sem gafst til að versla eða sóla sig í frábæru veðri sem við fengum alla ferðina. Eftir að keppninni lauk þá fóru allir að gera sig klára í lokahófið en þar var tilkynnt hverjir unnu heildarstigakeppnina og þar lentu stúlkurnar okkar í 7. sæti og drengirnir í 19. sæti. Þegar allir voru búnir að borða og búið að veita verðlaunin, þá var skemmtun fram eftir þar sem krakkarnir skemmtu sér vel. 

Það er alltaf jafn gaman að upplifa svona mót í gegnum krakkana og sjá hvað þau eru einbeitt þegar keppnin er í gangi og geta svo notið sín þegar henni er lokið. Það var mikið dansað og sungið þetta kvöld hjá öllum krökkunum í mótinu og ég held að okkar krakkar hafi haft gaman af þessu móti, bæði innan sem utan vallar. Þau eru allavega komin með gríðalega mikilvæga reynslu í bankann sinn sem mun nýtast þeim í að verða betri pílukastarar.

Síðasta daginn þegar beðið var eftir að fara í flug, þá fóru allir í tívolí sem var þarna rétt hjá og nutu sín í góðu veðri ásamt því að prófa skemmtileg tívolí tæki sem voru nokkur ferkar ógnvænleg. Við þökkum öllum stuðningsaðilum og þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera þessa ferð að veruleika. Framtíðin er björt hjá okkur og næstu kynslóðir sem eru að koma upp mun án efa láta að sér kveða  í landsliðsverkefnum og verður gaman að fylgjast með þeim að vaxa og dafna í íþrótt sem án efa er á mikilli uppleið á Íslandi sem og í heiminum. 

Áfram Ísland