Stigamót og Undankeppni – úrslit

Stigamót 8 og 9 voru haldin hjá Pílukastfélagi Reykjavíkur laugardaginn 5. október. Stigamótin eru notuð til að raða á stigalista ÍPS en listinn er notaður á flestum mótum sambandsins og tekur landsliðsþjálfari mið af listanum þegar úrtökuhópar eru valdir fyrir landsliðsverkefni.

Stigamót 8

Alls voru 15 karlar og 5 konur skráðar til leiks. Til úrslita spiluðu Þröstur Ingimarsson hjá PR og Karl Helgi Jónsson hjá PFR. Úrslitaleikurinn fór í oddalegg en það var Þröstur sem tók út og tryggði sigurinn. Þröstur var með 66.0 í meðaltal í úrslitaleiknum en Karl 65,1.

Í kvennaflokki sigraði Þórey Ósk Gunnarsdóttir en hún vann Diljá Töru Helgadóttur 5-2 í úrslitaleiknum. Þórey var með 44,5 í meðaltal en Diljá 41,8.

Stigamót 9

Stigamót 9 var haldið sama dag en 20 spilarar voru skráðir í karlaflokki og 6 í kvennaflokki. Til úrslita spiluðu Vitor Charrua hjá PFR og Matthías Örn Friðriksson hjá PG. Vitor sigraði 5-2 með meðaltalið 68,7 en Matthías var með sama meðaltal.

Í kvennaflokki sigraði María Steinunn Jóhannesdóttir en hún sigraði Petreu Kr. Friðriksdóttur 5-0 í úrslitaleiknum. María var með 49,8 í meðaltal en Petrea 44,0.

Undankeppni Íslandsmóts 2020

Önnur undankeppni Íslandsmóts 2020 fór fram sunnudaginn 6. október. Í fyrstu undankeppninni tryggðu sig inn Bjarni Sigurðsson hjá Píludeild Þórs, Eyjólfur Agnar Gunnarsson hjá PR, Þröstur Ingimarsson hjá PR og Þorgeir Guðmundsson hjá PFR. Í kvennaflokki voru það Petrea Kr. Friðriksdóttir hjá PFR og Arna Rut Gunnlaugsdóttir hjá PFR sem tryggði sig inní útsláttarhluta Íslandsmótsins.

Í dag bættust við í hópinn Matthías Örn Friðriksson hjá PG, Karl Helgi Jónsson hjá PFR, Sigurgeir Guðmundsson hjá PA og Guðmundur Valur Sigurðsson hjá PG. Í kvennaflokki voru það Þórey Ósk Gunnarsdóttir hjá PFR og María Steinunn Jóhannsdóttir hjá PFR sem tryggðu sig inn.

Eftir mót helgarinnar situr Matthías Örn Friðriksson (PG) í efsta sæti í karlaflokki og Petrea Kr. Friðriksdóttir (PFR) í kvennaflokki.

Seinustu stigamót ársins 2019 verða haldin hjá Píludeild Þórs helgina 9-10. nóvember. Sunnudaginn 10. nóvember verður einnig haldin þriðja undankeppni Íslandsmóts 2020.