U-18 landsliðið til Gíbraltar

Íslenska U-18 landsliðið í pílukasti ferðast á sunnudaginn til Gíbraltar en framundan eru 3 mót hjá Junior Darts Corporation eða JDC. Mótin verða haldin í Europa Point Arena í Gíbraltar en um 26 lið frá 16 þjóðum eins og Ástralíu, Nýja Sjálandi, Indlandi, Bandaríkjunum, Kanada munu taka þátt.

PDPA Junior World Cup verður spilað þriðjudaginn 24. september en mótið er liðakeppni. Miðvikudaginn 25. september verður síðan spilaður einmenningur í DartConnect Junior International Open þar sem spilaður er beinn útsláttur. Fimmtudaginn 26. september verður haldið Scott Farms International Junior World Darts Championship en í því móti en þeir spilarar sem komast í úrslit munu spila úrslitaleikinn í Alexandra Palace í London þegar heimsmeistaramót PDC fer fram í desember.

Hollendingurinn Juren van der Velde er núverandi meistari og mun hann því reyna að verja titil sinn en íslensku keppendurnir munu gera sitt besta til að neita honum því.

Íslenska U-18 landsliðið er skipað þeim Tómasi Orra Agnarssyni, Tómasi Breka Bjarnasyni, Alexander Þorvaldssyni og Alex Mána Péturssyni en þeir eru allir í Pílufélagi Grindavíkur.

Dart.is náði tali á Pétri Rúðrik Guðmundssyni landsliðsþjálfara U-18 og hafði hann þetta að segja um mótin sem eru framundan:

Undirbúningur fyrir JDC mótin hafa gengið mjög vel. Strákarnir hafa æft af kappi og eru mjög spenntir í að keppa við þá bestu í heiminum. Þeir hafa tekið þátt í töluvert af pílumótum í fullorðinsflokki og hafa staðið sig með mikilli prýði. Til að mynda vann Alex Máni sér inn sæti í Lengjudeildinni og hann er einungis 15 ára. Alexander Veigar átti einnig möguleika en komst ekki á síðasta mótið til að eiga möguleika á að vinna sér inn sæti. Í ljósi þessa, þá held ég að við séum eins undirbúnir og hægt er fyrir þetta mót. Við erum með tvo stráka í Alex Mána og Alexander Veigari sem gætu strítt þessum bestu á góðum degi og svo erum við með aðra tvö, Tómas Orri og Tómas Breki sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Varðandi markmið fyrir mótið, þá erum við á þeim stað að við erum að keppa við drengi sem eru alveg upp í 18 ára og því kannski ekki raunhæft að setja sér háleit markmið en þetta eru allt miklir keppnismenn þannig að ég veit að þeir trúa á sjálfan sig og í huga þeirra gæti leynst háleit markmið. En frá minni hendi séð, þá er þetta mót til að öðlast reynslu og læra að njóta sín að keppa við þá bestu. Það mun vonandi færa okkur þá reynslu sem þarf til að stefna á sigur í svona keppni til framtíðar.

Staðan í unglingapílu á Íslandi er á byrjunarreiti. Það er mikill áhugi fyrir pílukasti og eru skólar byrjaðir að taka pílu upp sem valfög. Enda er mikil stærðfræði og hugarreikningur fólgin í pílukasti og því liggur það beinast við að nýta píluna ekki bara sem skemmtun, heldur einnig sem æfing í stærðfræði. Svo er pílukast mikil hugaríþrótt og er mjög góð leið til að æfa hugann í erfiðum aðstæðum sem nýtist í í hvaða íþrótt sem er.

Það sem vantar núna eru fastar unglingaæfingar hjá pílufélögunum og að þeir pílukastarar sem eru nú þegar að kasta, leyfi krökkunum sínum að vera með þegar þau eruð að kasta pílu. Það er ekki nema ca. þrjú ár síðan við byrjuðum að huga að unglingastarfinu og það tekur tíma að bæði kveikja áhugann hjá krökkunum og ekki síður að opna augun hjá foreldrum fyrir þessari skemmtilegu íþrótt. Ég held að á næstu þremur árum, þá munum við sjá mikla aukningu á iðkenndum í pílukasti á meðal krakka og unglinga og hver veit nema að við eignumst evrópu- eða heimsmeistara unglinga í pílukasti á næstu fimm árum. Ég vil hvetja alla krakka og unglinga að prófa pílukast og ég vil sérstaklega hvetja stúlkur til að prófa þetta og láta sjá sig þegar æfingar eru auglýstar.

Liðin sem taka þátt eru:

Ástralía: Ky Smith, Mitchell Beswick, Hayden Scott, Lachie Gleason, Cody Dewey, Erin Logan, Tyson Stow, Faith Kainuku

Kanada: Zach van Vliet, Devin Gross, Hayden Brown, Nathan Sherk

Kína: Jiacheng Song, Jiale Dong, Zhengan Gu, Tao Jiang, Yile Liu, Xunxu Kuang, Yanxu Shi, Sheyuan Xue

Tékkland: Tomas Houdeck, Vilem Sedivy, Adam Gawlas, David Zaruba

Danmörk: Sebastian Bech, Robin Stegler, Sune Poulsen, Marius Bo Nielsen, Nikolaj Jorgensen, Lukas Jensen, Mads Salomonsen, Laurits Laurenborg

England: Nathan Care, Harry Gregory, Keelan Kay, James Beeton, Henry Coates, Sean Craig, Joe Pitchford Morris, Mitchell McCarthy

Gíbraltar: Justin Hewitt, Craig Galliano, Jerome Chipol, Sean Negrette, Dylon Duo Jnr, Casey Dyer, Joseph Borge, Elton Victory

Ísland: Tómas Orri, Tómas Breki, Alex Máni, Alexander Veigar

Indland: Nihar Baldha, Sankalp Salunkhe, Anadh Suhagiya, Akshat Andhariya, Thavish Vivek, Hasti Savaliya, Aman Lathiya, Devam Jasani

Írland: Keane Barry, Sean Cummins, Killian Heffernan, Katie Sheldon, Pearse Mackle, Ethan Willis, Sean McKeon, Dylon Dowling, Jamie Lee Cummins

Holland: Jurjen van der Velde, Daan Bastiaansen, Owen Roelofs, Luke van der Kwast, Danny Jansen, Marcel Bus, Kevin Lasker, Pim van Bijnen

Nýja Sjáland: Lachy Rountree, Sam Harman, Tumihitai Te Whero, Renata Leach, Dominic Clements, Jack Sheppard, Irie Eyles, Cory Horne

Skotland: Nathan Girvan, Kyle Walker, Connor Mitchell, John Gallazzi

Spánn: Isaac Munoz Sevillano, Roger Boronat, Pedro Fernandez Rubio, David Rodriquez Garcia

Bandaríkin: Jamison Merritt, Kaden Anderson, PJ Stewart Jr, Buster Graves

Wales: Taylor Smolden, Cole Davey, Ieuan Halsall, Brynmor Thomas, Ben Carr, Nathan Hanrahan, Zaidley Evans, Liam Butler, Ethan Haymes, Tomos Jones

Hægt verður að fylgjast með öllum leikjum hjá íslensku strákunum á tv.dartconnect.com og streymt verður frá Facebook síðu JDC.