Íslandsmótið í 501 var haldið um helgina hjá Pílukastfélagi Reykjavíkur. Metþáttaka var á mótinu en alls voru skráðir 87 keppendur en aldrei hafa fleiri keppt á Íslandsmóti á vegum sambandsins sem er merki um öran vöxt pílukasts á Íslandi.
Keppt var um Íslandsmeistaratitilinn í einmenningi á laugardeginum og tvímenningi á sunnudeginum en ríkjandi meistarar voru Vitor Charrua (PFH) í einmenningi karla, Ingibjörg Magnúsdóttir (PFH) í einmenningi kvenna, Pétur Rúðrik og Alex Máni (PG) í tvímenningi karla og Ingibjörg (PFH) og Jóhanna Bergsdóttir (Þór) í tvímenningi kvenna.
Í einmenningi karla sigraði Matthías Örn Friðriksson úr Pílufélagi Grindavíkur. Hann sigraði ríkjandi Íslandsmeistara Vitor Charrua 7-6 í æsispennandi úrslitaleik sem fór alla leið í oddalegg. Á leið sinni í átt að titlinum sigraði Matthías þá Ólaf Sigurjónsson (PFR) 5-1, Pál Árna (PG) 5-0, Rudolf Einarsson (PR) 5-0 og Bjarna Sigurðsson (Þór) 6-3. Matthías var með meðaltalið 74,88 yfir allt mótið, átti fæstar pílur (12) og tók út hæsta útskotið (170).
Í einmenningi kvenna sigraði María Steinunn Jóhannesdóttir úr Pílukastfélagi Reykjavíkur. Hún sigraði Þórey Gunnarsdóttur (PFR) 5-2 í 16 manna úrslitum, Petreu Friðriksdóttur (PFR) 5-1 í 8 manna úrslitum, ríkjandi Íslandsmeistara Ingibjörgu Magnúsdóttur (PFH) 6-5 í undanúrslitum og Diljá Töru Helgadóttur (PFR) 7-3 í úrslitaleiknum. María vann þar með sinn fjórða Íslandsmeistaratitil en hún var með 50.34 í meðaltal yfir allt mótið.
Í tvímenningi karla sigruðu þeir Þorgeir Guðmundsson úr Pílukastfélagi Reykjavíkur og Guðjón Hauksson úr Pílufélagi Grindavíkur en þeir eru báðir margfaldir Íslandsmeistarar. Þeir sigruðu Vitor Charrua (PFH) og Hallgrím Egilsson (PFR) 7-1 í úrslitaleiknum og var Guðjón með 70,23 í meðaltal í öllu mótinu og Þorgeir 64,56.
Í tvímenningi kvenna sigruðu þær Ingibjörg Magnúsdóttir úr Pílufélagi Hafnarfjarðar og Jóhanna Bergsdóttir úr Píludeild Þórs. Þær sigruðu Petreu Friðriksdóttur (PFR) og Sigríði Jónsdóttur (PR) 7-2 í úrslitaleiknum. Ingibjörg var með 45,53 í meðaltal í öllu mótinu og fylgdi Jóhanna fast á eftir með 44,21 í meðaltal.
Hægt er að skoða upptöku úr öllum leikjum helgarinnar á www.facebook.com/livedartsiceland
ÍPS vill óska sigurvegurum helgarinnar innilega til hamingju og þakkar öllum sem komu að mótinu á einn eða annan hátt kærlega fyrir. Við viljum einnig minna á aðalfund sambandsins miðvikudagskvöldið 11. mars kl. 18:30.
Stigamót 5-8 verða síðan haldin helgina 28.-29. mars næstkomandi í aðstöðu Pílufélags Reykjanesbæjar en opnað verður á skráningu í mótin innan nokkurra daga en þar munu línur skýrast enn betur hvaða spilarar tryggja sér þátttöku í Úrvalsdeildinni í pílukasti 2020.