Einstefna í úrslitaleikjum RIG 2021

Þau Ingibjörg Magnúsdóttir (PFH) og Páll Árni Pétursson (PG) eru Reykjavíkurleikameistarar 2021 en bæði sigruðu þau sína úrslitaleiki örugglega, 7-0 og 7-1. 

Ingibjörg sigraði Sólveigu Daníelsdóttur (PFR) í úrslitaleik kvenna og hafði yfirburði allan leikinn. Sólveig hafði möguleika á að taka út nokkra leggi en tók ekki sína möguleika og Ingibjörg sigldi sigrinum örugglega í höfn og varð því Reykjavíkurleikameistari í annað sinn.

„Þetta er frábær reynsla fyrir okkur að spila í svona umhverfi og gerir okkur að betri spilurum“ sagði Ingibjörg í viðtali við RÚV eftir sigurinn og óskaði eftir fleiri slíkum tækifærum í framtíðinni.

 Úrslitaleikur karla fór eftir sama handriti og úrslitaleikur kvenna en Páll Árni sigraði Matthías Örn Friðriksson (PG) örugglega 7-1 og varð einnig Reykjavíkurleikameistari í annað sinn. 

Páll spilaði af mikilli yfirvegun og var kominn í 3-0 þegar Matthías tók sinn fyrsta legg. Páll svaraði að bragði og vann þá leggi sem eftir voru og 7-1 sigur staðreynd. Páll fagnaði vel og innilega að leik loknum og situr hann nú í efsta sæti á stigalista ÍPS sem núllstilltur var í byrjun árs.

„Ég hleypti Matthíasi aldrei í leikinn og hann fékk aldrei að blómstra. Ég var ákveðinn og var með svar við öllu og útskotin gengu vel í dag“ sagði Páll í viðtali við RÚV í lok leiks.

ÍPS vill óska sigurvegurum innilega til hamingju með sigurinn og þakkar öllum þeim sem komu að mótinu á einn eða annan hátt.

Næsta mót á vegum sambandsins er Íslandsmót unglinga 2020 sem fresta þurfi á seinasta ári vegna COVID en er nú spilað í Grindavík þann 13. febrúar.