
Íslandsmótið í 301 fór fram helgina 16-17. október í aðstöðu Pílukastfélags Reykjavíkur. Einmenningur karla og kvenna var spilaður á laugardeginum og tvímenningur karla og kvenna á sunnudeginum. Mæting í mótin var mjög góð en um 70 manns gerðu sitt besta til þess að landa þeim titlum sem í boði voru um helgina. Það sannaðist einnig um helgina að pílukast er íþrótt fyrir alla en í fyrsta skiptið var einstaklingur í hjólastól sem tók þátt í mótinu. Pílukast er íþrótt sem vaxið hefur gífurlega síðustu misseri og hafa aldrei fleiri aðildarfélög verið innan ÍPS og ekki sér fyrir endann á þeirri fjölgun.
Það voru keppendur frá Pílukastfélagi Hafnarfjarðar (PFH) sem sigruðu í karla- og kvennaflokki í einmenning. Í karlaflokki sigraði Ástþór Ernir Hrafnsson kollega sinn úr PFH Vitor Charrua 7-4 í úrslitaleiknum en Ástþór, sem var að spila á sínu fyrsta Íslandsmóti í 301, sigraði nokkra öfluga keppendur á leið sinni að titlinum, þar á meðal Íslandsmeistarann frá því 2020 Friðrik Diego. Í undanúrslitum sigraði hann Grindvíkinginn Hörð Þór Guðjónsson og fagnaði síðan vel og innilega þegar hann sigraði úrslitaleikinn. Ástþór spilaði einnig best í riðlakeppninni sem fór fram fyrr um daginn og átti sigurinn svo sannarlega skilið.


Í kvennaflokki var kunnulegt nafn á bikarnum en Ingibjörg Magnúsdóttir úr PFH varð Íslandsmeistari í 301 eftir sigur á Brynju Herborgu Jónsdóttur frá Píludeild Þórs 7-4. Ingibjörg var að vinna sinn fjórða Íslandsmeistaratitil í 301 í röð en hún sigraði fyrst árið 2018 og hefur haft tangarhald á bikarnum síðan þá. Á leið sinni að titlinum sigraði hún nýliðann Sóley Eiklund í 16 manna úrslitum, Petreu Kr. Friðriksdóttur í 8 manna úrslitum, Sólveig Daníelsdóttur í undanúrslitum og tapaði einungis einum legg á leið sinn í úrslitaleikinn.


Á sunnudeginum fór síðan fram tvímenningur karla og kvenna og mættu 24 lið í karlaflokki og 9 lið í kvennaflokki. Spilaðir voru riðlar og fylgdi útsláttur í kjölfarið. Í karlaflokki sigruðu margfaldir Íslandsmeistarar þeir Þorgeir Guðmundsson PFR og Guðjón Hauksson PG en þeir sigruðu Matthías Örn Friðriksson PG og Björn Steinar Brynjólfsson PG 7-6 í skemmtilegum leik sem fór alla leið í oddalegg og áttu bæði lið pílur til þess að sigra.


Í tvímenningi kvenna voru það Arna Rut Gunnlaugsdóttir PFR og Brynja Herborg Jónsdóttir Píludeild Þórs sem sigruðu þær Ingibjörgu Magnúsdóttur og Brynju Björk Jónsdóttur 7-5 í úrslitaleiknum. Þær stöllur Arna og Brynja voru að sigra sína fyrstu Íslandsmeistaratitla í tvímenningi kvenna og fögnuðu vel og innilega að leik loknum.


Hægt er að skoða öll úrslit helgarinnar með því að smella HÉR
Upptaka frá beinum útsendingum Live Darts Iceland um helgina má finna á YouTube síðu Live Darts Iceland
ÍPS vill að lokum þakka öllum sem komu að mótinu á einn eða annan hátt og minnum á Stigamótshelgi sem fram fer helgina 6-7. nóvember í aðstöðu Pílufélags Reykjanesbæjar.