Íslandsmótið í 501 tvímenning var haldið sunnudaginn 15. október á Bullseye Reykjavík. Metþátttaka var á mótinu en 52 pör skráðu sig til leiks þar af 9 pör í kvennaflokki. Pílukastfélag Reykjavíkur átti flesta keppendur á mótinu en alls mættu til leiks pílukastarar frá 11 aðildarfélögum ÍPS.

Keppt var í riðlum og komust 4 pör úr hverjum riðli áfram í útsláttarkeppni. Streymt var frá öllu mótinu frá Live Darts Iceland og hægt er að skoða úrslit allra leikja HÉR.

Í kvennaflokki urðu þær Ingibjörg Magnúsdóttir (PFH) og Kitta Einarsdóttir (PR) Íslandsmeistarar eftir 6-1 sigur í úrslitaleik á móti þeim Steinunni Dagnýu Ingvarsdóttur (PG) og Söndru Dögg Guðlaugsdóttur (PG). Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill í 501 tvímenning hjá Kittu en sjötti titill Ingibjargar.

Í karlaflokki voru það Grindvíkingar sem mættust. Feðgarnir Guðjón Hauksson og Hörður Þór Guðjónsson sigruðu þá Matthías Örn Friðriksson og Björn Steinar Brynjólfsson 6-2 í úrslitaleiknum. Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Harðar í 501 tvímenning en sjötti titill Guðjóns.

Stjórn ÍPS vill óska sigurvegurum innilega til hamingju með árangurinn og þakkar kærlega öllum þeim sem komu að mótinu á einn eða annan hátt. Næst á dagskrá er F riðill Úrvalsdeildarinnar í pílukasti en hann verður spilaður miðvikudaginn 18. október á Bullseye og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Skráning í úrslitaumferð ÍPS deildarinnar fer einnig af stað í vikunni en þar verður heildar verðlaunafé amk 300.000kr!

Hér má síðan sjá myndir frá mótinu. Við hvetjum alla til að fylgja ÍPS á samfélagsmiðlum: Facebook og Instagram