
Íslandsmót unglinga 2022 fór fram um helgina í Píluklúbbnum, Reykjavíkurvegi 64 og var frábær mæting í mótið en um 30 ungmenni freistuðu þess að verða Íslandsmeistarar í fjórum flokkum. Mótið var vel heppnað í alla staði og langar ÍPS að þakka öllum þeim sem aðstoðuðu á einn eða annan hátt kærlega fyrir og óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju með árangurinn.
Keppt var í riðlum og fylgdi útsláttarkeppni í kjölfarið. Í stúlknaflokki 9-13 ára voru 8 keppendur og voru það Regína Sól og Linda Björk sem sigruðu sína riðla og þær mættust síðan í úrslitaleiknum og var það Regína sem hafði betur 3-0 og er því Íslandsmeistari í stúlknaflokki 9-13 ára og átti hún erfitt með að halda aftur tárunum þegar hún tók á móti bikarnum. Í 3-4 sæti lentu þær Valgerður Kristín Jónsdóttir og Guðfinna Sara Arnórsdóttir.

Í stúlknaflokki 14-18 ára voru 3 keppendur en Emilía Rós Hafdal Kristinsdóttir varð Íslandsmeistari eftir 3-1 sigur í úrslitaleiknum á móti Birnu Rós Daníelsdóttur en hún sigraði Thelmu Rut Þorvaldsdóttur í undanúrslitum.

Í drengjaflokki 9-13 ára voru 12 keppendur skráðir til leiks. Hinn 9 ára Axel James Wright kom sá og sigraði en hann varð Íslandsmeistari eftir 3-1 sigur á Sveinbirni Runólfssyni í úrslitaleiknum. Í 3-4 sæti lentu þeir Óskar Hrafn Harðarson og Eiður Aron Marteinsson.

Í drengjaflokki 14-18 ára mættu 8 keppendur til leiks en Alexander Veigar Þorvaldsson varð Íslandsmeistari 3ja árið í röð en hann sigraði Alex Mána Pétursson í úrslitaleiknum 5-0. Í 3-4 sæti lentu þeir Tómas Breki Bjarnason og Ottó Helgason.

Hægt er að horfa á upptöku af mótinu HÉR en það var sýnt í beinni útsendingu hjá Live Darts Iceland