Sunnudaginn 27. mars fór fram Íslandsmót Cricket í tvímenningi á Bullseye.
Alls tóku 18 lið þátt. 12 lið hjá körlum og 6 lið hjá konum. Riðlar voru spilaðir fyrr um daginn en svo tók við útsláttur hjá þeim sem komust uppúr sínum riðlum.

Hjá körlunum þá voru það Vitor Charrua – Haraldur Birgisson frá PFH og Hallgrímur Egilsson – Guðmundur Friðbjörnsson frá PFR sem spiluðu til úrslita.

Í fjórðungsúrslitum hjá Vitor og Haraldi unnu þeir Kristján Sigurðsson (PFR) og Alex Mána Pétursson (PG) 4-1. Í undanúrslitum spiluðu þeir gegn Grindvíkingunum Eiríki Má Reynissyni og Ástþóri Erni Hrafnssyni sem spila einnig fyrir PFH til þess að komast í úrslit. Vitor og Haraldur spiluðu vel í þessum leik og voru með 3,2 í meðaltal og sigruðu leikinn 5-2. Eiríkur og Ástþór voru sömuleiðis að spila vel en datt ekki með þeim í þetta skiptið.

Hallgrímur og Guðmundur unnu félaga sína úr PFR, þá Hólmar Árnason og Kamil Mocek örugglega 4-0 í fjórðungsúrslitum. Í undanúrslitum mættu þeir sterku liði frá Grindavík í þeim Herði Þór Guðjónssyni og Birni Steinari Brynjólfssyni. Hallgrímur og Guðmundur áttu þó ekki í neinum vandræðum og unnu öruggan 5-2 sigur og voru með 2,9 í meðaltal.

Í úrslitum þá byrjuðu Vitor og Haraldur mjög vel og stýrðu leiknum algjörlega. Þeir voru komnir í 4-0 en þá vöknuðu Hallgrímur og Guðmundur og unnu næstu 3 leggi og staðan því orðin 4-3. En frábær spilamennska hjá Vitor og Haraldi í næstu tveimur leggjum skilaði þeim 6-3 sigri og eru því Íslandsmeistarar í Cricket tvímenningi árið 2022.

Í kvennaflokki spiluðu Ingibjörg Magnúsdóttir – Brynja Björk Jónsdóttir úr PFH og Svanhvít Helga Hammer og Árdís Sif Guðjónsdóttir úr PG í úrslitum.

Ingibjörg og Brynja unnu Söndru Guðlaugsdóttu og Steinunni Ingvarsdóttir örugglega til að komast í úrslitaleikinn 5-0.

Það var hinsvega naglbýtur í hinum slagnum til að komast í úrslit. Svana og Árdís rétt mörðu þær Örnu Gunnlaugsdóttir og Brynju Herborgu Jónsdóttir í oddaleik og fór hann 5-4.

Ingibjörg og Brynja Björk byrjuðu úrslitaleikinn vel og tóku fyrstu 3 leggina. Árdís og Svana náðu einum legg til baka en Ingibjörg og Brynja tóku næstu 2 og leiddu leikinn 5-1. Árdís og Svana ætluðu ekki að gefast upp og náðu að minnka muninn með að vinna næstu 3 leggi og komin spenna í leikinn 5-4. En Ingibjörg og Brynja héldu haus og náðu að innsigla sigurinn í næsta legg og urðu með því Íslandsmeistarar í Cricket tvímenning í kvennaflokki árið 2022.

Spilað var um 3. sæti í karlaflokki og voru það Ástþór og Eiríkur sem sigruðu Björn Steinar og Hörð 5-1. Eiríkur Reynisson var mjög öruggur í sínum köstum ásamt Ástþóri Erni Hrafnssyni og áttu 3. sætið svo sannarlega skilið.

Mótahald gekk mjög vel þennan daginn og viljum við óska sigurvegurum innilega til hamingju með titlana og sömuleiðis öllum þeim þáttakendum sem tóku þátt. Sérstakar þakkir fá allir þeir sem aðstoðuðu á einn eða anna hátt og fær Bullsey miklar þakkir fyrir að taka vel á móti öllum keppendum og mótstjórn.

Hér fyrir neðan má síðan sjá myndir af sigurvegurum helgarinnar en ÍPS vill minna á ICELAND OPEN 2022 sem haldið verður helgina 23-24 apríl næstkomandi og er hægt að finna allar upplýsingar um mótið ásamt skráningu HÉR


3. sæti – Eiríkur og Ástþór
2. sæti – Svana og Árdís
2. sæti karlaflokki – Halli og Gummi
1. sæti karlaflokki – Vitor og Haraldur
1. sæti kvennaflokki – Ingibjörg og Brynja