Vignir Sigurðsson landsliðsþjálfari karla í pílukasti undanfarin ár hefur ákveðið að hætta störfum sem landsliðsþjálfari. Vignir segist þakklátur fyrir það tækifæri að hafa fengið að þjálfa Íslenska landsliðið frá því 2014 og allar þær góðu stundir með liðinu og öllu því fólki sem hefur komið að landsliði Íslands í pílukasti. Ástæða fyrir þessari ákvörðun var vinnutengd en hann segist ganga afar sáttur og þakklátur frá borði og hlakkar til að fylgjast með uppgangi pílukasts á Íslandi í framtíðinni.
ÍPS vill á móti þakka Vigni fyrir sitt frábæra og óeigingjarna starf í þágu pílukasts á Íslandi en leit er þegar hafin af nýjum þjálfara en í dag eru bæði karla- og kvennalandslið Íslands þjálfaralaus.
Norðurlandamótið 2020 sem halda átti í Danmörku í lok apríl hefur verið blásið af vegna COVID-19 og er því næsta landsliðsverkefni Evrópumótið í haust. Stjórnin hefur verið að funda undanfarna daga varðandi þjálfaramóal og til að ákveða hvernig landslið Íslands verður fundið ef ekki finnst þjálfari og verða þær reglur gefnar út innan skamms.