ÍPS kynnir með stolti í samvinnu við Tryggingar og Ráðgjöf ehf NOVIS deildina í pílukasti. NOVIS deildin er fyrir alla pílukastara sem hafa gilda skráningu í einu af aðildarfélögum sambandsins. Ef þú ert ekki ennþá skráð/ur í aðildarfélag þá getur þú gert það með því að fylla út skráningarformið hægra megin á síðunni.

NOVIS deildin er hönnuð fyrir pílukastara á öllum sviðum íþróttarinnar. Deildirnar eru settar þannig upp að þú færð marga keppnisleiki og alla við leikmenn með svipað getustig. Það skiptir ekki máli hvort þú stefnir á að keppa fyrir landslið Íslands eða ert að taka þín fyrstu skref í pílukasti, þú færð alltaf að keppa við jafninga í íþróttinni og því undir þér komið hvað þú vilt ná langt.

Keppt verður í karla- og kvennaflokki en í boði verður fyrir konur að taka þátt í karlaflokki í einstaka umferðum ef þær hafa áhuga á því.

Fjöldi deilda fer eftir skráningu hverju sinni. Hámarksfjöldi í hverri deild eru 10 manns. Ef skráningar ná ekki heilum tug fyrir ákveðna umferð þá gæti þurft að breyta fjölda í hverri deild í þeirri umferð en ávallt verður reynt að hafa 8-10 manns í hverri deild í hverri umferð.

Spilað verður 501, best af 7 leggjum í 3 efstu deildum í karlaflokki og efstu deild í kvennaflokki en best af 5 leggjum í öðrum deildum. Allir spila við alla einu sinni og eru gefin 2 stig fyrir sigur í hverjum leik. Sigurvegarar hverrar deildar verða krýndir að hverri umferð lokinni og fá þau að launum glæsilegan verðlaunapening ásamt því að tryggja sig upp um amk eina deild í næstu umferð.

Ekki er gerð krafa um að taka þátt í öllum umferðum deildarinnar. Raðað verður eftir stigalista ÍPS í fyrstu umferð en eftir það verður reiknað heildarskor hvers keppanda sem ákvarðar síðan í hvaða deild hann spilar í næstu umferð. Þar sem heildarskorið tekur mið af bæði sigurleikjum og meðaltali keppanda í deildinni er möguleiki á að fara upp og niður um fleiri en eina deild í einu. Þetta fyrirkomulag er notað til að tryggja að allir fái jafna keppni og að leikmönnum verði ekki refsað fyrir að geta ekki keppt í einstaka umferðum.

Stefnt er að því að spila 5 umferðir á árinu 2022 ásamt úrslitakvöldi í lok árs. Spilað verður á sunnudögum og hefjast fyrstu leikir í öllum deildum kl. 10:30. Notast verður við Dartconnect kerfið sem er mjög byrjendavænt og auðvelt í notkun. Hægt er að sjá dagsetningar allra umferða á dagatali ÍPS 2022 sem finna má efst á síðunni. Hér fyrir neðan má einnig sjá hvernig riðlablöð fyrir hverja umferð líta út en þar koma fram helstu reglur og tímasetningar leikja.

Riðlablað

Nánari upplýsingar og regluverk NOVIS deildarinnar má sjá með því að smella HÉR

Að lokum viljum við þakka NOVIS kærlega fyrir þeirra stuðning og hvetjum alla sem hafa áhuga á að kynna sér sparnað og tryggingar að kíkja á www.tryggir.is og kynna sér hvað þau hafa uppá að bjóða.