ÍPS skrifaði í dag undir eins árs samning við Ingibjörgu Magnúsdóttur og Kristján Sigurðsson um þjálfun landsliða Íslands í pílukasti. Ingibjörg mun sjá um og velja landslið Íslands í bæði meistaraflokki kvenna og U18 landslið Íslands í stúlknaflokki en Kristján mun sjá um og velja landslið Íslands í meistaraflokki karla en Pétur Rúðrik Guðmundsson er starfandi landsliðsþjálfari U18 í drengjaflokki. Jesper Sand Poulsen, fyrrverandi landsliðsþjálfari ákváð að að rifta samningi sínum við sambandið og þakkar sambandið Jesper kærlega fyrir óeigingjarnt starf seinustu mánuði.
Næsta verkefni landsliðs Íslands er Evrópumót WDF en 4 karlar og 4 konur fara á mótið fyrir Íslands hönd. Evrópumótið er haldið dagana 27 sept. – 1. okt næstkomandi og verða úrtakshópar tilkynntir á næstunni og landslið Íslands fyrir það verkefni í framhaldi.
Blaðamaður ÍPS náði tali af nýju landsliðsþjálfurunum og voru þau spennt fyrir komandi verkefni:
Hvernig er svo að verða orðinn landsliðsþjálfari Ingibjörg?
Það er bara frábært, spennandi tækifæri
Verðuru með einhverjar breytingar á þjálfun kvennalandsliðsins fyrir komandi landsliðsverkefni?
Já, það hefur vantað betra utanumhald utan um þjálfun kvennalandsliðins, ég mun setja meiri pressu og fleiri verkefni fyrir þær konur og stúlkur sem hafa áhuga á að spila fyrir Íslands hönd.
Hvenær munt þú velja úrtakshópinn og hvenær byrja æfingar?
Ég mun velja úrtakshópinn fyrir vikulok og hefja æfingar á föstudaginn næsta. Ég mun svo velja lokahópinn fyrir EM eftir nokkrar vikur.
Hvernig líst þér á að vera orðin landsliðsþjálfari stúlkna í pílukasti?
Mjög vel, það eru margar efnilegar ungar stúlkur í íþróttinni og það er kominn tími til að við gefum þeim tækifæri á að sýna hvað þær geta á erlendri grundu
Hvaða mót eru fyrir stúlknaflokk í pílukasti?
Það er t.d. Evrópumót unglinga sem haldið er einu sinni á ári. Einnig heldur Junior Darts Corporation (JDC) mót á hverju ári fyrir drengi og stúlkur. Norðurlandamótið hefur hingað til ekki verið með unglingaflokk en mig langar að kanna púlsinn á hinum Norðurlandaþjóðunum og sjá hvort það sé ekki grundvöllur fyrir því að bæta drengjum og stúlkum á það mót.
Blaðamaður náði einnig tali af Kristjáni eftir undirskrift hans í dag
Hvernig er að verða orðinn landsliðsþjálfari karla í pílukasti?
Það er mjög spennandi verkefni og ég hlakka mikið til að takast á við það.
Verða einhverjar breytingar á þjálfun fyrir komandi landsliðsverkefni?
Já það verða fleiri æfingar en voru fyrir NM en ég kom þar inn sem liðstjóri stuttu fyrir mót.
Nú verða einungis 4 karlar valdir fyrir næsta verkefni, hvað verða margir valdir í úrtakshópinn?
Ég hef ekki ákveðið fjöldann en ég reikna með að það verði 4 mjög ánægðir með mín störf og um 10-12 óánægðir þegar ég vel lokahópinn.
Hvenær byrja æfingar fyrir úrtakshópinn?
Ég og Ingibjörg verðum með sameiginlegar æfingar fyrir karla- og kvennaliðið og við munum tilkynna lokahóp á sama tíma, í kringum 20. júlí næstkomandi