Watt sprengdi öll öryggi – Alex að springa út?

Dennis Watt var orkufrekur á Winmau Iceland Open 2019 sem haldið var um helgina. Það átti enginn roð í Skotann sem tapaði einungis þremur leggjum á leið sinni að titlinum. Alex Máni, 14 ára Grindvíkingur sýndi eldri spilurum enga miskunn en hann sigraði meðal annars Úrvalsdeildarmeistarann frá því í fyrra Joseph Doroon á leið sinni í úrslitaleikinn.

Alls voru 48 spilarar skráðir í karlaflokki og 7 í kvennaflokki en spilað var í Hlégarði, Mosfellsbæ við bestu aðstæður. 8 riðlar í karlaflokki og 2 í kvennaflokki voru spilaðir og eftir þá voru 32 manna úrslit karla ljós og undanúrslit hjá konum.

32 manna úrslit

Dennis byrjaði 32 manna úrslitin á að sigra Friðrik Jakobsson 3-0 með 82 í meðaltal. Atli Bjarnason spilaði vel en hann var með 79,1 í meðaltal í 3-0 sigri á Lofti Sveinssyni og Íslandsmeistari unglinga Alex Máni var með 72.7 í meðaltal í 3-0 sigri sínum á Rúnari Árnasyni

16 manna úrslit

Dennis hélt uppteknum hætti í 16 manna úrslitum en þar sigraði hann Leonard Clouston 4-1 með 83,9 í meðaltal. Joseph Doroon spilaði vel en hann vann Karl Helga Jónsson 4-0 með 75,2 í meðaltal. Óvæntustu úrslitin voru þegar Pétur Guðmundsson tapaði 4-1 fyrir Svein Skorra Höskuldssyni sem spilaði vel um helgina.

Fjórðungsúrslit

Sveinn Skorri átti þó ekki möguleika í fjórðungsúrslitunum en Dennis hvítþvoði hann 5-0 með 73,7 í meðaltal. Joseph hélt áfram að spila vel en hann náði að aftengja handsprengjuna Vitor Charrua 5-3 með 76 í meðaltal.

Undanúrslit/Úrslit

Dennis tók síðan Halla Egils í nefið 6-1 með 86 í meðaltal og Alex Máni fylgdi honum í úrslitaleikinn en hann sigraði Joseph 6-4. Þrátt fyrir að Dennis hafi spilað sinn versta leik í úrslitunum náði Alex ekki að setja nægilega mikla pressu á hann og fór það svo að Dennis fór nokkuð auðveldlega í gegnum úrslitaleikinn 7-1 en Alex má vera stoltur af frammistöðu sinni um helgina.

Undanúrstli/Úrslit

Petrea Friðriksdóttir hélt áfram sigurgöngu sinni en hún sigraði Meistari Meistaranna fyrr í mánuðinum. Sigurinn kom þó ekki eins þægilega og hjá körlunum en bæði undanúrslitaleikurinn og úrslitaleikurinn fóru í oddalegg. Í undanúrslitunum þá sigraði hún Diljá Töru Helgadóttur 6-5 og í úrslitaleiknum þá höfðu báðir spilarar möguleika á að sigra en Peta tók út og lyfti þar með bikarnum að þessu sinni.

Stjórn ÍPS vill þakka öllum sem komu að þessu móti á einn eða annan hátt kærlega fyrir sitt framlag.

Undirbúningur fyrir Íslandsmótið byrjar nú af fullum krafti en það verður haldið helgina 4-5 maí.

Hér má sjá myndir frá helginni. Búið er að búa til instagram og Snapchat aðgang þar sem koma myndskeið og myndir af öllu sem er að gerast í íslensku pílukasti og um að gera að followa pilukast á Snapchat og pilukastisland á Instagram.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af sigurvegurum í einmenning karla og kvenna: