Kristján Sigurðsson landsliðsþjálfari karla og kvenna tilkynnti í gær þá 8 leikmenn sem koma til með að keppa fyrir hönd Íslands á WDF Heimsmeistaramótinu í Esbjerg, Danmörku í september nk.

Í kvennaliði Íslands eru:

  • Árdís Sif Guðjónsdóttir úr PG
  • Brynja Herborg úr PFH
  • Ingibjörg Magnúsdóttir úr PFH
  • Kristín “Kitta” Einarsdóttir úr PR

Í karlaliði Íslands eru:

  • Alexander Veigar Þorvaldsson úr PG
  • Haraldur Birgisson úr PFH
  • Matthías Örn Friðriksson úr PG
  • Vitor Charrua úr PFH

Heimsmeistararamótið, eða WDF World Cup verður haldið í Esjberg í Danmörku dagana 26. – 30. september 2023. Núverandi liðameistarar á WDF World Cup frá 2019 er lið Wales, en mótið var ekki haldið árið 2021 vegna kórónuveirufaraldursins.

Dart.is tók tal af Kristjáni landsliðsþjálfara og spurði hann út í landsliðsvalið og hvernig hann metur stöðuna á íslensku pílukasti og framtíð þess.

Hvernig leggst í þig að fara á heimsmeistaramótið sem landsliðsþjálfari bæði karla og kvennaliðsins?

Ég er mjög spenntur fyrir komandi verkefni. Ég veit að allir sem að þessu koma eru til í að leggja sig 100% fram og sýna þessu verkefni mikla virðingu.

Nú eru alltaf fleiri og fleiri pílukastarar sem gera tilkall til landsliðsins. Hvernig gekk að velja bara fjóra kastara í hvort lið?

Það var gríðarlega erfitt að velja aðeins 4 kastara í hvort lið.  Það gerðu margir einstaklingar mjög sterkt tilkall til þess að vera í liðinu og stór nöfn í pílukastinu hér á landi sem ekki komust í liðið að þessu sinni. Við erum komin á þann stað að vera svo heppin að vera með það mikið af spilurum að það væri hægt að velja 2 til 3 lið sem öll gætu staðið sig vel á þessu móti. 

Nú upplifir maður svona eins og íslenskt pílukast sé á mikilli uppleið. Hvernig metur þú getu okkar liða gagnvart t.d. nágrannaþjóðum okkar núna og möguleika okkar gegn þeim á næstu árum?

Við höfum verið aðeins á eftir hinum þjóðunum á síðustu árum en við erum að nálagast hinar þjóðirnar hratt.  Við höfum sýnt það á mótum erlendis að við eigum fullt erindi í þessa erlendu spilara.  Ég veit að við getum bitið frá okkur og við förum óhrædd í þetta mót.  Á næsta ári verður Nordic Cup hér á landi og þar eigum við að setja markið hátt.